Nú er lokið flokksfundum VG, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, og samþykktu flokkarnir þrír að endurnýja ríkisstjórnarsamstarfið.
Í dag var fundað á fullu: Miðstjórn Framsóknarflokks og flokksráð Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna funduðu stíft í allan dag; farið var yfir stjórnarsáttmála flokkanna.
Miðstjórn Framsóknarflokks og flokksráð Sjálfstæðisflokks samþykktu stjórnarmyndunina um á sjötta tímanum í dag; flokksráð VG samþykkti stjórnarmyndunina rétt um sjö.
Í tilkynningu frá VG segir að 80% flokksráðsfulltrúa hafi samþykkt stjórnarsáttmálann: Á annað hundrað manns voru á fundinum; Þar af um hundrað með atkvæðisrétt sem flokksráðsfulltrúar:
„Miklar umræður urðu um stjórnarsáttmálann og var fundur VG lengri en sambærilegir fundir hinna stjórnarflokkanna, enda rík hefð innan hreyfingarinnar að ræða málin vel og lengi,“ segir í tilkynningu VG.
Nokkrar breytingar verða á ráðuneytum ríkisstjórnarinnar; heilbrigðisráðuneytið mun fara til Framsóknar; ásamt splunkunýju innviðaráðuneyti með samgöngu-, sveitarstjórnar-, húsnæðis- og skipulagsmálum.
Þá verður mennta- og menningamálaráðuneytinu skipt upp og mun Framsóknarflokkurinn fara með skóla- og barnamál.
Einnig verður uppstokkun á atvinnumálum; mun Framsókn fara með ferðaþjónustu, menningu, skapandi greinar, viðskipti og samkeppnismál.
VG mun stýra forsætisráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu og matvæla- sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.
Stærsti flokkur landsins – Sjálfstæðisflokkurinn, mun stýra fjármálaráðuneytinu, umhverfisráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, dómsmálaráðuneytinu og hluta atvinnumála með nýsköpun ásamt háskólamálum.
Á morgun verður svo nýji stjórnarsáttmálinn kynntur opinberlega.