Bandaríski hönnuðurinn Tommy Hilfiger sýndi nýja línu á tískuvikunni í London um síðustu helgi. Að vanda voru 90’s-áhrifin augljós.
Hversdagsleg föt með skírskotun í tíunda áratuginn og hip hop-menningu voru áberandi á tískupalli Hilfiger um helgina eins og við var að búast. Hilfiger hefur sagt að áður fyrr hafi stóru tískuhúsin litið niður á hann fyrir að sýna „götuklæðnað“ á tískupöllunum á tískuvikum en núna séu margir farnir að feta í hans fótspor.
Leisertækni í stað skaðlegra efna
Hilfiger sagði nýlega í viðtali við breska miðilinn Independent að umhverfisvernd væri honum hugleikin og að teymið hjá Tommy Hilfiger hefði tileinkað sér umhverfisvænni aðferðir við hönnun og framleiðslu.
Endurunnið gallaefni spilar til dæmis stórt hlutverk í þessari nýju línu. Gallaefnið er svo unnið með leisertækni í stað skaðlegra litar- og bleikiefna og mikils magns vatns. Hilfiger segir umbúðir þeirra líka vera umhverfisvænni en áður þar sem notast er við endurunnin efni að einhverju leyti.
Myndir / EPA