Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.8 C
Reykjavik

Engar afsakanir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 31. tölublaði Vikunna

 

Hugurinn er öflugasta „líffæri“ mannsins og sannarlega margt til í því að hann haldi ávallt mest aftur af okkur þegar kemur að því að láta draumana rætast.

Ásdís Ósk Valsdóttir fékk hugljómun undir fyrirlestri Davids Goggins árið 2017. Hann hafði spurt sig hvort ævisaga hans yrði áhugaverð og komist að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Þess vegna hóf hann að endurskrifa hana. Og Ásdís Ósk ákvað að gera það sama. Hún var orðin þreytt og leið á að vera alltaf pirruð og reið, svekkt út í sjálfa sig og lífið. Í hennar tilviki gerði aukin hreyfing og sjálfsvinna hjá sálfræðingi kraftaverk. Hún gat leyft fortíðinni að vera liðinni og notið augnabliksins. Þetta er iðulega hægara sagt en gert vegna þess að mörg okkar eiga stórra harma að hefna.

Í sumum tilfellum hafa aðrar manneskjur gert svo gróflega á hlut okkar að það lamar sálina og engin von er um réttlæti. Ásdís Ósk hafði til dæmis þurft að ganga í gegnum þrjú fósturlát. Tvö þeirra hefði mátt forðast ef læknirinn hennar hefði gert viðeigandi rannsóknir. Í hroka sínum og ofdrambi kvaðst hann ekki gera rannsóknir á konum fyrr en eftir að þær hefðu gengið þrisvar í gegnum þessa sársaukafullu reynslu. Hann hafði síðan ekki meiri þekkingu en svo að hann skildi ekki hvað var að þótt rannsóknir lægju fyrir. Þetta er auðvitað ekki eina dæmið um að læknar telji sig yfir skjólstæðinga sína hafna og því miður eru afleiðingarnar oftast þær að þeir skaðast.

„Ef við erum ekki sátt við aðstæður okkar er svo auðvelt að hverfa í huganum aftur til betri og hamingjuríkari tíma.“

Ásdís Ósk var einnig föst í ákveðinni fortíðarþrá, líkt og við öll einhvern tíma. Ef við erum ekki sátt við aðstæður okkar er svo auðvelt að hverfa í huganum aftur til betri og hamingjuríkari tíma, velta fyrir okkur hvað hafi orðið um manneskjuna sem við vorum þá og hvenær gleðineistinn slokknaði. Enginn hefur hins vegar gott af því að festast þarna og komast ekki upp úr hjólfarinu. Stundum þarf góðan vin eða skynsaman fyrirlesara til að ýta við manni. Þótt vissulega sé það svo að ótalmargt geti hamlað og komið í veg fyrir að manneskjur geti látið drauma sína rætast eru þeir samt sveigjanlegir.

Allir geta eitthvað og enginn getur allt. Með því að temja hugann og opna fyrir nýjum áhrifum er aldrei að vita nema maður geti öðlast þann lífskraft og hamingju sem geislar af Ásdísi Ósk. Til allrar lukku er lífið ekki búið eftir fertugt og fimmtugur er fljúgandi fær og svo einstaklega víðsýnn af sjónarhóli sextugra.

- Auglýsing -

Sjá einnig: Ákvað að taka sjálfa sig í sátt

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -