Þóra Jóhanna Jónasdóttir, dýralæknir hjá MAST, segir að hverfandi líkur séu á því að gæludýr geti smitað eigendur sína af COVID-19 – eða öfugt.
Hún segir að fjöldi fyrirspurna hafi borist stofnuninni vegna COVID-19 faraldursins og því hafi þótt ástæða til að taka saman upplýsingar á heimasíðu MAST til að svara spurningum gæludýraeigenda sem til þeirra hafa leitað.
„Við höfum sett upp spurningar og svör varðandi það hvort sé ástæða til að óttast þessi smit, annaðhvort að dýrin geti smitað eigendur eða þá öfugt. Það eru hverfandi líkur en það er fræðilegur möguleiki. Á heimsvísu hefur veiran aðeins fundist í þremur tilvikum í gæludýrum, í tveimur hundum og einum ketti. Hundarnir sýndu engin sjúkdómseinkenni. Kötturinn sýndi öndunarfæra- og meltingareinkenni, sem óvíst er hvort tengdist smitinu, en náði sér hratt,“ segir Þóra Jóhanna.
„Vissulega þarf að skoða þetta betur og það er verið að setja upp fleiri rannsóknir í nokkrum löndum þess efnis. En að svo stöddu er ekkert sem bendir til þess að gæludýr beri smit á milli. Það er samt auðvitað rétt að hafa allan vara á og þvo vel hendurnar eftir snertingu við dýr eins og annað, og einnig áður en matur er útbúinn fyrir dýrið.“
Tveir sýktir hundar og einn köttur
Þótt talið sé að kórónuveiran sé upprunnin í dýrum og hafi færst yfir í menn, hefur ekki verið sýnt fram á að smit hafi borist frá húsdýrum eða gæludýrum til manna eða annarra dýra.
Í tveimur tilfellum hefur veiran greinst í sýnum sem tekin voru úr hundum sýktra einstaklinga, en hundarnir sjálfir veiktust aldrei. Í báðum tilfellum var um að ræða hunda sem sýktust af eigendum sínum í Hong Kong. Sá fyrri var af pomeranian-kyni og var smit hans staðfest 28. febrúar síðastliðinn en eigandinn, 60 ára kona, hafði þá líka verið greind með smit og þótti það sannað að dýrið hafði smitast af eigandanum. Hundurinn sýndi engin einkenni og veiktist ekki af völdum veirunnar en lést hins vegar um miðjan marsmánuð, þá 17 ára að aldri. Konan hefur ekki leyft krufningu á dýrinu og því er dánarorsök ókunn. Í hinu tilfellinu var um að ræða þýskan fjárhund sem greindist jákvæður af veirusmiti og sannað að hann hafi einnig sýkst af eiganda sínum í Hong Kong.
Þá greindist nýlega belgískur heimilisköttur með COVID-19 og talið er að eigandi hans hafi borið smitið yfir í dýrið en eigandinn hafði greinst jákvæður viku áður. Kötturinn var með sjúkdómseinkenni í öndunarfærum og meltingu en ekki hefur verið staðfest að þau hafi verið vegna veirunnar. Engar vísbendingar eru um að þessi dýr hafi borið smit í fólk eða önnur dýr.
Hreinlæti skiptir máli
Samkvæmt ráðleggingum Matvælastofnunar skal ávallt þvo hendur eftir snertingu við dýr, sérstaklega áður en matvæla er neytt og almennt ætti að forðast að leyfa hundum að sleikja andlit fólks og hendur. Það er í lagi að fara út með hundinn að því gefnu að leiðbeiningum um sóttkví og einangrun sé fylgt.
Nánar er fjallað um málið í helgarblaðinu Mannlíf.