Sóley Dröfn Davíðsdóttir var að gefa út sjálfshjálparbókina Náðu tökum á þunglyndi. Hún segir lesningu bókarinnar jafnast á við nokkra tíma hjá sálfræðingi.
Sóley er forstöðusálfræðingur við Kvíðameðferðarstöðina og hefur sérhæft sig í kvíðavandamálum svo sem félagsfælni. „Kvíðavandamál og þunglyndi fara hins vegar svo oft saman og því hef ég líka mikið unnið með þunglyndi í gegnum tíðina,“ segir Sóley.
Spurð út í fyrir hvern bókin sé skrifuð segir Sóley: „Bókin er hugsuð fyrir fólk sem glímir við þunglyndi og vill vinna á vandanum á eigin spýtur eða nýta hana samhliða meðferð hjá fagfólki. Einnig er þetta góð lesning fyrir aðstandendur sem vilja skilja sína nánustu betur og vera þeim innan handar.“ Sóley segir bókina einnig geta koma sér vel fyrir fagfólk.
„Svo er bókin góð lesning fyrir alla sem vilja fræðast um þunglyndi en eins eru kaflar um svefnleysi, kulnun, maníu og samskipti í bókinni sem komið geta einhverjum að gagni.“
Ein leið út úr þunglyndinu
Spurð út í hvernig sé að takast á við þetta viðamikla viðfangsefni segir Sóley: „Það virðist flókið og viðamikið að skrifa um þunglyndi og eins og við vitum eru margar og mismunandi ástæður fyrir því að fólk verður þunglynt. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að það er aðeins ein leið út úr þunglyndinu og það er að rjúfa vítahring þunglyndis. Við fæðumst ekki með þekkingu á vítahring þunglyndis en þegar búið er að átta sig á hvað viðheldur vandanum hjá hverjum og einum er eftirleikurinn auðveldari.“ Hún tekur fram að bókin sé byggð á hugrænni atferlismeðferð (HAM).
„Hugrænni atferlismeðferð er ein öflugasta meðferðin sem völ er á við þunglyndi og dregur mest meðferða úr líkum á að þunglyndi taki sig upp aftur. Stór hluti af HAM er fræðsla um það hvernig tilfinningar virka og hvernig hafa megi áhrif á líðan sína og því er tilvalið að koma þeirri þekkingu á framfæri í bókarformi. Lesning svona bókar er ódýr kostur og ætti að vera á við nokkra tíma hjá sálfræðingi. Það hafa alls ekki allir kynnst HAM sem glíma við þunglyndi og þessar aðferðir því afar öflug verkfæri í baráttuna við þunglyndið.“
Sóley bætir við: „Það er engin lifandi manneskja sem kýs að vera þunglynd. Fólk reynir að komast til botns í vandanum en sekkur við það bara dýpra, líkt og að berjast um í kviksyndi. Um leið og fólk lærir hvernig þunglyndi virkar og breytir vanabundnum viðbrögðum sínum við þunglyndinu fara góðir hlutir að gerast.“