Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Engin svör

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

 

Leiðari úr 32. tölublaði Mannlífs

Höfundur / Friðrika Benónýsdóttir

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kom og fór og í einn dag var Ísland eins og leikmynd í bandarískri bíómynd; bílaflotar á lokuðum götum, leyniskyttur á þökum, handabönd og innihaldslausar ræður fyrir framan blaðamenn. Allir fjölmiðlar landsins fjölluðu um heimsóknina og viðbrögð almennings við henni í löngu máli en það vakti althygli að í allri þessari umfjöllun var lítið minnst á tilgang heimsóknarinnar og hvaða þýðingu hún hefði fyrir umsvif Bandaríkjamanna á Íslandi. Sirkusinn var í bænum og allir dönsuðu með en veltu því lítið fyrir sér hvað væri að gerast á bakvið tjöldin.

Áður en varaforsetinn steig á land höfðu fjölmiðlar velt því fyrir sér hver tilgangur heimsóknarinnar væri og leitað álits sérfræðinga á því hvað hún þýddi. RÚV ræddi meðal annars við Guðmund Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði, um heimsóknina daginn áður en Pence kom og í því viðtali kom fram að slíkar heimsóknir eru aldrei að ástæðulausu, það er alltaf einhver tilgangur með þeim. Eða eins og Guðmundur orðaði það: „Þessir pótintátar koma ekki til landa nema að þeir telji sig hafa eitthvert erindi þangað. Þetta er ekki bara kurteisisheimsókn. Hann er að koma vegna einhverra erinda sem hann er að reka.“

Látið var að því liggja í viðtalinu við Guðmund að það kæmi í ljós hvaða erindi það væru sem varaforsetinn væri að reka þegar heimsóknin væri afstaðin, en það bólar lítið á svörum við þeirri spurningu. Hinn almenni Íslendingur er engu nær um það hvað þessi heimsókn þýddi. Jú, utanríkisráðherra viðraði áhuga sinn á fríverslunarsamningi við Bandaríkin og forsætisráðherra ræddi loftslagsmál og kvenréttindi við varaforsetann. Hvorugt skýrir á nokkurn hátt grundvöll þess að Bandaríkin sáu ástæðu til að senda næstæðsta valdamann sinn til Íslands í sjö tíma. Það er alveg ljóst að Mike Pence var ekki hér til að ræða kvenréttindi, réttindi hinsegin fólks eða loftslagsvána. Hann var hér sem fulltrúi herveldis sem í einn dag lagði miðborg Reykjavíkur undir sig og virtist geta fengið öllum sínum kröfum um hlægilegar varúðarráðstafanir framgengt. Var það kannski tilgangur heimsóknarinnar? Að sýna Íslendingum hver ræður?

Varnarsamningur Íslendinga og Bandaríkjamanna er enn í fullu gildi og fram hefur komið að Bandaríkin hyggjast auka umsvif sín á Keflavíkurflugvelli að nýju en hversu mikil þau umsvif eiga að verða er á huldu. Íslenskir ráðamenn virðast hins vegar ekki hafa haft mikinn áhuga á að ræða þau mál við varaforsetann ef marka má fréttaflutning af heimsókninni.

„Bandaríkin hyggjast auka umsvif sín á Keflavíkurflugvelli að nýju, en hversu mikil þau umsvif eiga að verða er á huldu.“

- Auglýsing -

Forsætisráðherra sagði einungis að ekkert nýtt hefði komið fram í því efni á fundi hennar og varaforsetans. Hvað þýðir það? Geta Bandaríkjamenn gert hvað sem þeim sýnist á sinni herstöð í Keflavík? Þarf ekkert að ræða það eða hafa Íslendingar einfaldlega ekkert um það að segja? Það væri sannarlega gott að fá svör við þeim spurningum og það sem fyrst. Okkur kemur það nefnilega við.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -