Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

„Enginn hjálpaði eða skeytti um lítinn dreng sem var að reyna að reisa föður sinn á fætur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gunnar Smári Egilsson gerir upp feril sem ritstjóri, útgefandi, stórforstjóri og loks stjórnmálaforingi öreiganna. Barnæskan mótaðist af alkóhólisma föður hans. Glímdi sjálfur við áfengisfíkn. Stofnaði Fréttablaðið sem græddi á óbeit Davíðs Oddssonar. Úthrópaður vegna Fréttatímans. Fékk hvergi vinnu. Þóttist hafa dreymt föður Sólveigar Önnu til að fá hana í framboð í Eflingu. Sósíalistaflokkurinn á sigurbraut. Þingmennskan heillar ekki. Uppgjör Gunnars Smára.

 

„Þegar ég fæddist var alkóhólismi föður míns orðinn mjög slæmur og hann vann ekki nema aðra hverja viku. Hann eyddi nánast öllu sem hann aflaði í drykkjuna. Mér finnst þegar ég hugsa til baka að mamma var, fyrst þegar ég man eftir henni, í ástandi sem nú kallast áfallastreituröskun. Hún stóð sig þrátt fyrir það eins og hetja og hélt fjölskyldunni saman. Hún hélt fjölskyldufundi yfir kvöldmatnum og fór yfir viðburði dagsins hjá hverjum og einum. En það var ekki alltaf til matur. Við áttum ekki fyrir nýjum fötum og við höfðum ekki efni á því að fara til tannlæknis.“

Foreldrar Gunnars Smára skildu. Þá reyndi faðir hans sitt besta til að standa sig sem helgarpabbi. En það gekk á ýmsu.

„Mamma er af fyrstu kynslóð kvenna sem skilur við vonlausa manninn. Áður var slíkt varla í boði. Hún sýndi þá hetjulund að stíga út í óvissuna og skilja við karlinn. Mér þykir afar vænt um þau bæði og ber ekki nokkurn kala til þeirra þótt ég hafi komið illa nestaður úr æskunni. Pabbi var með illkynja sjúkdóm sem engin meðferð var til við í þá daga. Þau voru bæði að glíma við mjög erfiðar aðstæður. Eftir skilnaðinn reyndi pabbi að halda samskiptum við okkur börnin. Hann sótti mig oftast þar sem ég var yngstur, stundum okkur tvo yngstu. Í fæstum tilvikum gekk þetta vel hjá honum. Oftast datt hann í það og þá sátum við uppi með hjálparlausan drukkinn mann á undarlegustu stöðum, á tjaldstæði, í bíó, úti í Viðey.“

Gunnar Smári rifjar upp sára minningu frá því faðir hans fór með hann á íþróttaviðburð í Laugardagshöllinni. Hann var sjö ára.

„Við vorum á handboltaleik. Hann þurfti að fara á salernið og ég fór með honum niður. Hann datt í stiganum, lá bjargarlaus á stigapallinum og pissaði í buxurnar. Fólkið sem gekk fram hjá hló að honum. Enginn hjálpaði eða skeytti um lítinn dreng sem var að reyna að reisa föður sinn á fætur. Það eru svona atburðir sem ég losna ekki við. Ég er alltaf með þennan dreng inni í mér og ég heyri hláturinn enn. Það er inngróið í mig að vantreysta múgnum, þessu samkomulagi og hvað er boðlegt og hvað ekki, hver fær að vera með og hverjum er haldið úti. Og niðri.“

- Auglýsing -
Helgarblað Mannlífs er komið út.

Gunnar Smári segir að fátækt barnæskunnar hafi fylgt honum upp úr æskunni sem skömm. En að það hafi verið skömm sem hengd var á hann.

„Ég upplifði skömm vegna þess að fötin mín voru slitin og gat á skónum.“

„Mamma varð fyrir fátækt sem samfélagið þröngvaði upp á hana. Eins er með skömmina út af pabba. Hann valdi sér ekki sitt hlutskipti. Það eina sem hann gerði af sér var að bera þennan banvæna sjúkdóm sem samfélagið neitaði að veita meðferð við. Ég upplifði skömm vegna þess að fötin mín voru slitin og gat á skónum. Í minningunni var ég votur í fæturna frá því ég var fimm ára og fram að fermingu. Lífsglíma mín fyrstu áratugi fullorðinsáranna snerist að stóru leyti um að losna undan þessari skömm sem ég bar þó aldrei neina ábyrgð á: Það var samfélagið sem tróð þessu upp á mig. Í dag skammast ég mín ekki fyrir hvaðan ég kem og enn síður fyrir foreldra mína. Enda ætti ég frekar að skammast mín fyrir samfélagið.“

Lestu viðtalið í heild sinni í Mannlíf.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -