„Það var tregafull stund að skilja við gamla manninn“
Bjarki segist sem íbúi og sveitarstjórnarfulltrúi ekki fá orða bundist vegna stöðunnar. „Hvernig getur það gerst að enginn læknir sé tiltækur í Rangárþingi svo dögum skiptir yfir jól og áramót? Er það forsvaranlegt að ein af grunnstoðum samfélaga sé brotin undan því án þess að nokkur fái rönd við reist?“ spyr hann og fagnar því að samfélgið eigi frábæra hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og sjúkraflutningamenn sem standi vaktina þrátt fyrir að enginn læknir sé tiltækur.
Hann rifjar upp aðfangadagskvöldið þegar afi hans lést og fjölskyldan kom saman við dánarbeð gamla kaupfélagsstjórans sem var rúmlega 100 ára þegar kallið kom.
„Það var tregafull stund að skilja við gamla manninn á herberginu sínu eftir andlátið. Skilaboðin voru að vonandi næðist í lækni á morgun og yrði þá hægt að úrskurða um andlátið daginn eftir eða hinn daginn, fyrr mætti ekki færa hann í líkgeymslu,“ skrifar Bjarki. Ólafur heitinn var fluttur á útfararstofu á jóladag, án þess þó að hafa verið úrskurðaður látinn.
Hann segir að þessi frásögn hefði getað orðið mun dramatískari hefði mannslíf legið við og þörf hefði verið á skjótri og sérhæfðri meðferð læknis að halda.
„Afi gamli var saddur lífsdaga og enginn læknir var að fara að snúa við gangi lífsins hjá honum. Það er samt sem áður ólíðandi staða komin upp í samfélaginu okkar þegar fólkið okkar þarf að liggja í vindkældum herbergjum eftir andlát, vegna þess að ekki næst í lækni. Ég mun berjast fyrir hönd íbúa í þessu málefnum og hef ekki efa um að félagar mínir í sveitarstjórn Rangárþings eystra munu standa mér þétt við hlið í þeirri baráttu,“ skrifar Bjarki og þakkar dásamlegu starfsfólki Kirkjuhvols fyrir natni við umönnun afa síns sem fengið hafi dásamlega þjónustu þar síðustu árin sín.