Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

„Enn á ný munu gammarnir fara á kreik og voma yfir eigum almennings og fyrirtækjum á vonarvöl“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Á erfiðleikatíma í sjávarútvegi var farið þá leið að stofna tvo sjóði sem komu til hjálpar fyrirtækjum. Annar sjóðurinn, Atvinnutryggingarsjóður, lánaði lífvænlegum fyrirtækjum en hinn sjóðurinn, Hlutafjársjóður, lagði til hlutafé í fyrirtæki sem voru á kafi í skuldum og á barmi gjaldþrots. Þannig varð stórfelld ríkisvæðing í sjávarútvegi. Þessar lausnir voru góðar og gildar á erfiðum tímum,“ segir Reynir Traustason í leiðara sínum í Mannlífi.

Segir hann svo að þegar fyrirtækin hófu að rétta úr kútnum þá hafi spillingin orðið ofan á. „Þá röðuðu pólitískir gæðingar sér á jötuna og sumir eignuðust fyrirtæki eða hlut í fyrirtækjum á útsölu. Hið sama er uppi á teningnum núna en nú er það ferðaþjónustan. Fjölmörg fyrirtæki eru að gefast upp. Sum eiga lífsvon en önnur mun deyja eða falla í eigu ríkisins. Þá þurfa menn að vanda sig og rjúfa tengslin á milli viðskipta og stjórnmála. Einkavæðingin eftir ríkisvæðinguna verður að lúta lögmálum heiðarleika og gagnsæis. Græðgi og heimska stjórnmálamanna varð til þess að risavaxin og uppblásin gróðafyrirtæki komust yfir eigur hinna fátæku.“

Eftirmálar Hrunsins

Reynir rifjar einnig upp spillinguna sem var í eftirmálum Hrunsins. „Þúsundir fjölskyldna voru sviptar heimilum sínum og send á Guð og gaddinn. Úti fyrir vomuðu hræfuglarnir. Græðgi og heimska stjórnmálamanna varð til þess að risavaxin og uppblásin gróðafyrirtæki komust yfir eigur hinna fátæku og forsmáðu. Gammarnir, sumpart með hjálp spilltra lífeyrissjóða, fengu að kaupa íbúðir sem teknar höfðu verið af fólki sem burðaðist með ólögleg gengistryggð lán,“ segir Reynir. „Við þekkjum svo eftirleikinn. Burgeisarnir lögðust í hóglífi fyrir arðinn af eigum hinna fátæku. Oflátungshátturinn varð yfirþyrmandi. Hinir nýríku sönkuðu að sér listaverkum á vinnustöðum sínum og skáluðu í kampavíni á meðan almenningur lifði skort. Vinir og vandamenn fengu að njóta molanna af gnægtarborði fasteignakónganna. Sagan um Bjart í Sumarhúsum myndgerðist um, allt land. Leiguliðar þjáðust undir oki nýríkra leigusala. Allt í boði stjórnmálamanna sem ýmist glímdu við skort á viti eða höfðu hag af því að færa eignir frá hinum snauðu yfir til þeirra ríku.“

Hvað gerist eftir COVID-19?

Ljóst er að næstu misseri munu mörg fyrirtæki þurfa á hjálp að halda til að lifa kreppuna. „Fjármálaráðherra hefur boðað inngrip og aðstoð við fyrirtæki í vanda. Þetta mun gerast með tvennum hætti. Fyrirtæki fá rekstrarlán með því að sleppa við greiðslu opinberra gjalda. Önnur fyrirtæki fá niðurgreitt vinnuafl með því að fólk fer í hlutastörf. Þriðji hópurinn verður yfirtekinn af ríkinu,“ segir Reynir, og telur að gammarnir muni aftur láta á sér kræla.

- Auglýsing -

„Enn á ný munu gammarnir fara á kreik og voma yfir eigum almennings og fyrirtækjum á vonarvöl. Þá er áríðandi að skynsamir, velmeinandi stjórnmálamenn gæti þess vandlega að flokksgæðingum verði ekki umbunað á kostnað heiðarlegra borgara. Spillingin er fylgifiskur mannkynsins og mun alltaf verða til staðar. En verkefnið er að halda henni niðri eins og kostur er. Umfram allt má ekki níðast á lítilmögnum í krafti pólitískra áhrifa og gráðugra einstaklinga. Við skulum láta eftirleik Hrunsins okkur að kenningu verða og gæta þess að illgresið leggi ekki undir sig samfélagið með tilheyrandi harmleikjum. Næstu mánuðina er mikilvægt að standa vaktina og tryggja sem flestum skjól gegn gömmum og nöprum vindum. Látum upprisuna eftir kreppu veirunnar markast af réttsýni, samúð og heiðarleika. Mennskan á að verða í öndvegi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -