Það er Erlu Bolladóttur þungbært að sök hennar skuli enn standa í máli sem varð til þess að hún var útskúfuð og hötuð í áratugi. Í nýjasta tölublaði Mannlífs sem kemur út á morgun tjáir Erla sig um afhjúpanir í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu sem komu nýlega fram í sjónvarpsþáttunum Skandall.
Í viðtalinu ræðir hún einnig framkomu stjórnvalda í garð sexmenninganna sem máttu þola einangrun og pyntingar.
„Ég veit ekki hvað lá að baki starfsháttum lögregunnar í Keflavík á sínum tíma og svo í Reykjavík í framhaldinu. En miðað við hvernig komið var fram við okkur af hálfu yfirvalda í öll þessi ár og enn í dag þá á ég ekki von á miklu af hálfu hins opinbera. Að enn sé komið svona fram og að það sé búið að staðfesta sök mína, þvert á öll rök og skynsemi er enn eitt áfallið eftir öll þessi ár. Í raun erfiðara núna þar sem ég er að verða sextíu og fjögurra ára og framkoma stjórnvalda við mig í dag er til þess fallin að halda mér enn fanginni í málinu,“ segir Erla sem komst nýlega að því að hún gæti krafist endurupptöku aftur í ljósi nýrra gagna, þ.e. að dómur um meinsæri standist ekki þar sem allir þeir sem dæmdir voru fyrir morð á Geirfinni eru sýknaðir. Um leið er forsenda fyrir meinsæri augljóslega brostin.
Erla tekur þá fram að hún hafi enga trú á dómsmálakerfinu og þeim sem í því starfa. „Ég geri mér þess vegna engar vonir um að málið sjálft verði tekið til rannsóknar.“
Ekki missa af Mannlífi á morgun.
Mynd/ Hallur Karlsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL á Íslandi
Sjá líka: Það er verið að hrúga salti í öll sár, dag eftir dag