Mygluvandamál í skólum og leikskólum í Fossvogi halda áfram. Að þessu sinni hefur komið upp mygla í leikskólanum Kvistaborg í Fossvogi og leikskólabörn og starfsfólk er flúið í öruggt húsnæði í Safamýrarskóla.
Fossvogsskóli hefur verið mikið til umfjöllunar síðustu mánuði eftir að mygla kom upp í skólanum. Erfitt hefur reynst að laga skemmdirnar og hafa börn verið færð í annað húsnæði þrisvar sinnum meðan unnið er að endurbótum.
Foreldrar eru afar reiðir vegna seinagangs og skipulagsleysi Reykjavíkurborgar enda hafi slík rótering áhrif á nemendur.
Framkvæmdir og viðgerðir sem standa til á Kvistaborg má meðal annars rekja til rakaskemmda.
Reykjarvíkurborg hefur gefið frá sér tilkynningu þar sem því er lýst yfir að starfsemin færist yfir í Safamýrarskóla frá og með 21.september næstkomandi. Um fjórir kílómetrar eru á milli skólanna.
Óvíst er hvenær leikskólastarfið komist aftur í sitt húsnæði í Fossvogi en stefnt er að því fyrir jól.
„Flutningur starfseminnar og fyrirhugaðar framkvæmdir voru kynntar fyrir starfsfólki og foreldrum á fundum í (gærkvöldi). Þar kom fram að verkfræðistofan Efla mælir með að farið verið í gagngerar endurbætur á elsta hluta skólans sem byggður var 1972 og hentar illa starfi nútíma leikskóla. Ákveðið var að flytja alla starfsemi skólans tímabundið í Safamýri 5 sem áður var Safamýrarskóli til að hægt verði að fara í undirbúning framkvæmda á meðan unnið er að hönnun og skipulagningu verksins,“ er á meðal þess sem kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Unnið hefur verið að því síðustu fimm mánuði að gera húsnæði í vesturhlusta Safamýrarskóla hentugt starfsemi Kvistaborgar.
„Haldinn verður starfsdagur á Kvistaborg mánudaginn 20. september til að auðvelda flutning á leiktækjum og öðrum munum og mun leikskólinn opna á ný í Safamýrarskóla þriðjudaginn 21. september. Stefnt er að því að starf leikskólans flytji aftur í Fossvog fyrir jól,“