„Notast er við upptökur úr yfirheyrslum og ný viðtöl sem varpa ljósi á hina ýmsu þætti málsins sem er kannski ekki eins klippt og skorið og maður hélt.“ Þetta segir Árni Jóhannsson, skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands, um hlaðvarp sem fjallar um morðið á Robert F. Kennedy. Árni deilir sínum uppáhaldshalðvörpum með Mannlífi í þessari viku.
Árni Jóhannsson, skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands og annar stjórnenda körfuknattleiks hlaðvarpsins Fjórðungur, er mikill aðdáandi alls kyns hlaðvarpa og hlustar nánast á hverjum degi á þau. Íþróttahlaðvörp eru oft í hlustun hjá honum enda eru íþróttir hans aðaláhugamál. Hann fagnar gróskunni sem er í íslenskum íþróttahlaðvörpum en það er hægt að heyra umræðu um nánast allar deildir í knattspyrnu og körfuknattleik á Íslandi í hlaðvarpi. Þá heillast Árni af hlaðvörpum sem veita honum innsýn í kima sem ekki er auðvelt að nálgast. Svo sem sakamál, sögulega atburði eða hugarheim þekktra einstaklinga.
The Bill Simmons Podcast
„Bill Simmons er höfuð Ringer-dægurmála samsteypunnar en hann fjallar aðallega um bandarískar íþróttir og dægumál líðandi stundar. Hann hefur fengið til sín viðmælendur úr íþróttaheiminum ásamt einstaklingum sem eru þekktir fyrir tónlist eða leiklist. Þannig fær maður innsýn í líf þeirra og hvernig þeir sjá lífið sem er kannski öðruvísi en maður hafði ímyndað sér. Hann hefur aðgang að mönnum sem hafa mikið vit á íþróttunum sem hann vill fjalla um, sem veitir meiri dýpt en kannski í umjföllun annarra miðla.“
The RFK tapes
„Hér er morðið á Robert F. Kennedy krufið til mergjar en enn er margt á huldu varðandi það þó yfirvöld hafi lokað því með því að sakfella Sirhan Sirhan fyrir morðið. Notast er við upptökur úr yfirheyrslum og ný viðtöl sem varpa ljósi á hina ýmsu þætti málsins sem er kannski ekki eins klippt og skorið og maður hélt.“
Caliphate
„Talandi um að fá innsýn inn í kima sem maður hefur kannski ekki greiða leið að og vill kannski ekki eiga greiða leið að. Caliphate er í umsjá Rukimi Callimachi, blaðamanns hjá New York Times, sem ræðir við vígamenn og óbreytta borgara sem hafa orðið fyrir áhrifum af ISIS. Verðlaunahlaðvarp sem er virkilega vel gert.“