Föstudagur 22. nóvember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Enn strangt eftirlit á Ítalíu – verðir mæla líkamshita fólks

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það hefur nú ekki mikið breyst hérna,“ segir Guðlaug Böðvarsdóttir, sem býr í bænum Castelluchio í Lombardiu-héraðinu, spurð hvaða áhrif tilslakanir sem gerðar voru á útgöngubanni á Ítalíu í gær, 4. maí, hafi haft á líf íbúanna.

„Fólk má jú fara út núna, en ég veit ekki hversu mikið frelsi það er að fara út með grímu og hanska,“ heldur Guðlaug áfram. „En þetta er samt byrjun, það er búið að opna kirkjugarðinn og fólk má fara þangað þrjá daga í viku. Með grímu og hanska, auðvitað og það standa verðir í hliðinu og mæla hvort fólk sé með hita og ef hann er hærri en 37.5 gráður fær það ekki að fara inn í garðinn. Sama gildir ef fólk fer með ruslið í Sorpu eða yfir landamerki á milli héraða innan Ítalíu, þar eru verðir í vegatollaskýlum sem mæla hita þeirra sem eru í bílunum og senda þá sem eru með of mikinn hita aftur til baka. Og auðvitað líka þá sem ekki hafa einhverja gilda ástæðu til að fara milli héraða. Það er nefnilega enn bannað að fara út fyrir Lombardiu nema það sé algjörlega nauðsynlegt vegna vinnu eða annars.“

Innilokuð heima í sextíu og einn dag

Guðlaug segir að þrátt fyrir að heimilt hafi verið í gær að fara út hafi hún ekki nýtt sér þann möguleika ennþá. „Ég sé ekki alveg hvernig ég á að fá syni mína, þriggja ára og tíu mánaða, til að vera með grímur,“ segir hún og hlær. „Það væri þá eitthvað kraftaverk ef þær yrðu kyrrar á andlitum þeirra meira en fimm mínútur.“

Tilslakanirnar verða endurmetnar eftir sjö daga og þá kemur í ljós hvort fleiri hömlum verði aflétt eða hvort algjört útgöngubann verði sett á aftur. „Svo er búið að gefa það út að skólar og leikskólar muni ekki byrja aftur fyrr en í september, svo eldri sonur minn er ekki að fara aftur á leikskólann sinn fyrr en þá,“ segir Guðlaug. „Eftir tilslakanirnar í dag má fólk heimsækja fjölskyldumeðlimi eða kærustur og kærasta en það er allt og sumt, það er enn bannað að heimsækja vini og kunningja.“

„Ég sé ekki alveg hvernig ég á að fá syni mína, þriggja ára og tíu mánaða, til að vera með grímur.“

Mannlíf talaði fyrst við Guðlaugu í lok febrúar, á fyrstu dögum útgöngubannsins, og hún hefur sem sagt alfarið verið heima hjá sér síðan, er þetta ekki orðið nánast óbærilegt ástand?

- Auglýsing -

„Já, ég var einmitt að telja dagana áðan,“ segir Guðlaug og andvarpar. „Þetta er orðinn sextíu og einn dagur sem við höfum verið heima. Og ég verð að segja að ég er eiginlega gjörsamlega búin á því, þetta hefur tekið rosalega á. Við erum svo heppin að vera með stóran garð og getum verið þar eins og við viljum, en það að geta ekki talað við annað fólk eða farið að kaupa mjólk, það er bara miklu meira en að segja það.“

Í samtali við Mannlíf þann 9. mars sagðist Guðlaug lifa í voninni um að geta komið í heimsókn heim til Íslands í sumar en sú von er nú slokknuð. „Við förum ekki neitt úr landi, það er ljóst,“ segir hún. „Við erum að krossleggja fingur að við getum kannski farið til Suður-Ítalíu seinna í sumar, til að skipta aðeins um umhverfi, en það er algjörlega óljóst hvort það verður leyfilegt. Við vitum í rauninni ekkert hvert framhaldið verður og sú óvissa er eiginlega verst af öllu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -