Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Enn þegja Agnes biskup, Sr. Ninna og Pétur um mál séra Gunnars: „Ég tjái mig ekki um það mál“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mannlíf hefur árangurslaust reynt að fá svör frá æðstu ráðamönnum hinnar íslensku Þjóðkirkju vegna máls séra Gunnars Björnssonar, sem neitað var um að fá að jarðsetja góða vinkonu sína sem hafði farið þess á leit á hennar síðustu dögum að hann myndi sjá um útför hennar. Fjölskyldu konunnar var mjög brugðið vegna neitunarinnar, og er hreinlega í sárum.

Ninna Sif Svavarsdóttir bannaði að séra Gunnar sæi um útförina.

Líkt og Mannlíf þá hefur fjölskyldan árangurslaust reynt að fá rökstudd svör frá Agnesi biskup, biskupsritara/samskiptastjóra – Pétri Georgi Markan, og prestinum í Hveragerðiskirkju, Sr. Ninnu Sif Svavarsdóttur.

Pétur Georg Markan er samskiptastjóri/biskupsritari Þjóðkirkjunnar, en forðast hins vegar samskipti við Mannlíf vegna máls séra Gunnars Björnssonar.

Mannlíf sendi fyrirspurn um málið á biskupsstofu, en biskupsritari/samskiptastjóri Þjóðkirkjunnar, Pétur Georg Markan, hefur ekki svarað neinu.

Fyrirspurnin var send til Péturs þann 8. september síðastliðinn, og var einföld – nákvæmlega svona:

Komdu sæll og blessaður Pétur, og afsakaðu ónæðið. Svanur Már Snorrason heiti ég og er blaðamaður á Mannlífi. Ég er með fyrirspurn. Þegar prestar komast á „aldur“ – 67 til 70 ára, mega þeir samt sem áður sjá um til dæmis brúðkaup, skírnir og jarðarfarir? Eða hætta þeir einfaldlega allri þjónustu á vegum Kirkjunnar eftir að eftirlaunaaldri er náð? Með kærri kveðju og von um góð viðbrögð, Svanur

Ekkert svar, ekkert hljóð.

- Auglýsing -

Blaðamaður Mannlífs átti í samskiptum við Sr. Ninnu í Hveragerðiskirkju, sem sagði einfaldlega við blaðamann Mannlífs:

„Ég tjái mig ekki um það mál við fjölmiðla.“

Blaðamaður spurði á móti hvers vegna hún vildi ekki tjá sig um málið við fjölmiðla, og hvort hún eða Þjóðkirkjan hefðu eitthvað að fela:

- Auglýsing -

Blm. Mannlífs:

„Hvers vegna ekki? Það er algjör þögn Þjóðkirkjunnar í þessu máli. Hafið þið eitthvað að fela? Veit ekki til annars en að séra Gunnar Björnsson sé með hreina sakaskrá. Einhver er ástæðan eða ástæðurnar fyrir þögn ykkar. Ég vísa aftur í upplýsingalög nr. 140/2012, og ítreka spurningar mínar.“

En þá heyrðist ekkert nema ærandi þögnin; sama þögnin og virðist vera orðin að einkennismerki Þjóðkirkjunnar hér á landi; að reyna að þagga mál niður án nokkurra svara eða útskýringa. Kallast einfaldlega þöggun, og er ekki til sóma og hreinlega til skammar fyrir opinbera og risastóra stofnun sem haldið er uppi með skattfé almennings. Og það er ekki lítið fé.

Mannlíf hefur undir höndum mörg samskipti sonar konunnar sem jarðsungin var í Hveragerðiskirkju og var neitað um að séra Gunnar Björnsson sæi um útförina.

Þar stendur ekki steinn yfir steini.

Vísa Agnes biskup og Sr. Ninna hvor á aðra varðandi það hver það var sem átti síðasta orðið varðandi bannfæringu séra Gunnars Björnssonar. Agnes biskup segir að ákvörðunin hafi verið tekin af Sr. Ninnu, en hún aftur á móti segir að Agnes biskup hafi haft síðasta orðið.

En frá biskupsritaranum/samskiptastjóranum Pétri Georg Markan hefur hins vegar hvorki heyrst hósti né stuna; þegir þunnu hljóði, sem er í hrópandi andstöðu við starf hans.

Mannlíf er hvergi nærri hætt að fjalla um málið, og á morgun verður sendur ítarlegur spurningarlisti á æðstu stjórnendur Þjóðkirkjunnar, samskiptastjóra og Sr. Ninnu Sif Svavarsdóttur, og þá með vísan í upplýsingalög.

Íslensku Þjóðkirkjunni ber að svara fyrirspurnum frá fjölmiðlum, hvort sem spurningarnar eða efnið er á jákvæðu nótunum eður ei, þægilegar eða óþægilegar.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -