Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Er ágreiningur hjá pörum einn stór misskilningur?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Íris Eik Ólafsdóttir, réttarfélagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur hjá Domus Mentis, Geðheilsustöð.

Já, stundum er það reyndin. En slíkt er ekki tilkomið af því að annar eða báðir aðilar séu svo vitlausir heldur má sökudólginn yfirleitt finna í samtalinu milli parsins og hvernig það hefur þróast frá því það kynntist. Langur vegur getur verið á milli þess sem sagt er og þess hvernig makinn heyrir og túlkar það. Þetta leiðir til samskiptamynstursmisskilnings sem kveikir oft vanlíðan, gremju og vonbrigði. Við þessar aðstæður er algengt að fólk safni óútkljáðum deilum í svokallaðan „gremjubanka“ sem síðan er meðvitað eða ómeðvitað tekið út úr og notað gegn hinum aðilanum þegar ágreiningur rís.

Fyrsta skrefið fyrir þann sem upplifir óánægju við slíkar aðstæður er að tileinka sér tilfinningastjórnun. Með því dregur viðkomandi úr líkum þess að ágreiningur vindi upp á sig og nær frekar að koma sínum sjónarmiðum á framfæri af yfirvegun og með málefnalegum hætti. Með því að velja sér viðbrögð sem eru mildari s.s. að hlusta á hinn, passa tóninn í röddinni, velja mildari orð og forðast orð eins og aldrei eða alltaf. Þetta eykur líkur á að parið nái að ræða út um mál á rólegum nótum þrátt fyrir að vera ekki sammála í öllum tilfellum.

Ef ekki er gripið inn í þetta ferli og par aðstoðað við að ná að ræða saman með skýrari hætti fer fólk að upplifa sig í óhamingjusömu sambandi. Einstaklingarnir geta farið að upplifa að maki sinn skilji sig ekki og/eða að hann sé ómögulegur þegar það eru í raun samskiptin sem eru ómöguleg. En ef par áttar sig á misskilningnum og nær að leiðrétta hann áður en hann nær rótfestu er hægt að afstýra storminum. Hugræn atferlismeðferð er hönnuð til að hjálpa pörum að gera það. Hún aðstoðar parið við að gera hugsun þeirra skýrari og þá um leið samskiptin þar sem þau læra að koma í veg fyrir að misskilningurinn verði til.

Ein undantekning er á þessu eins og öðrum góðum lögmálum, það er ef um ofbeldissamband er að ræða. Þá er alveg skýrt að annar aðilinn ber meginábyrgð á því sem erfitt er í sambandinu þó svo að viðkomandi reyni að sannfæra hinn aðilann um að hegðun hans sé að valda því hvernig viðkomandi hegði sér. Grundvallarregla í samskiptum er að hver og einn ber ábyrgð á eigin hegðun. Það hvað við segjum eða gerum getur aldrei verið ástæðan fyrir því að einhver beiti ofbeldi. Allir þurfa að vanda sig í samskiptum og sérstaklega þegar við erum illa upp lögð þurfum við að vanda okkur sérstaklega mikið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -