Völvan, vitundarvakning um málefni píkunnar, hefur birt nokkur myndbönd á YouTube með reynslusögum kvenna um fóstureyðingar.
Í einu þeirra opnar Íris Stefánsdóttir sig um sína reynslu, en hún átti mjög erfitt með að eignast börn.
„Í hvert sinn sem að við vorum að reyna að eignast barn og ég var orðin þunguð, þá var alltaf þessi ótti um að missa fóstrið og það var mjög sárt og vont,“ segir Íris og bætir við að hún hafi misst fóstur fimm eða sex sinnum.
„Það var orðið svo oft að ég var hætt að telja,“ segir hún. Í dag á hún þrjár dætur sem hún þurfti að hafa fyrir, en hún þurfti líka einu sinni að fara í fóstureyðingu.
„Ég hef sjálf farið í fóstureyðingu einu sinni. Það var eina skiptið sem ég virkilega vonaðist til þess að ég myndi missa. Svona er að vera með píku. Ég varð ófrísk eftir að hafa fengið mjög alvarlegt fæðingarþunglyndi. Og ég átti mjög erfiðan tíma og verð ófrísk óvart,“ segir Íris í myndbandinu.
Á bara að vera okkar val
Hún segir enn fremur að hún hafi vonað heitt að náttúran myndi grípa inní, eins og hún hafði gert oft áður.
„Náttúran sá ekki um þetta fyrir mig þannig að ég varð að fara í fóstureyðingu. Mér fannst það mjög erfitt.“
Íris segir að það hafi tekið mikið á að fara í viðtöl hjá félagsráðgjöfum og læknum og útskýra af hverju hún vildi fara í fóstureyðingu.
„Mér fannst ég verða að svo lítilli manneskju í stólnum. Mér fannst ég sökkva niður, einhvern veginn. Hér er ég komin, gallaða konan að biðja um fóstureyðingu. Þetta á bara að vera okkar val. Ég hefði ekki getað átt barn á þessum tímapunkti í lífi mínu. Það hefði verið mér mjög erfitt og fjölskyldu minni.“
Hér fyrir neðan má sjá viðtalið við Írisi, en á YouTube-rás Völvunnar má sjá fleiri myndbönd, til dæmis um fóstureyðingar.