Höfundur / Íris Eik Ólafsdóttir, réttarfélagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur hjá Domus Mentis, Geðheilsustöð.
Foreldrar eru flestir hverjir góðir í því að taka tillit til þroska minni barna og meta hvað þau eru fær um að gera. Þegar kemur að unglingum er eðlilegt að gera meiri kröfur en það getur gleymst að unglingar eru ekki með sama þroska og fullorðið fólk. Það helsta sem greinir þar á milli er að þau eru góð í að drífa sig í eitthvað sem þeim dettur í hug að gera núna en hafa ekki endilega þroska til að taka með í reikninginn að sjá fyrir afleiðingar gjörða sinna, skipuleggja fram í tímann eða leysa úr vandamálum.
Það er alls ekki víst að það sem þú telur vera hjálplegar athugasemdir séu hjálplegar fyrir unglinginn. Það er eðlilegt að foreldrar leiðbeini börnunum sínum. En það að vera sífellt að leiðbeina og gefa ráð er ekki vænlegt til árangurs. Það mikilvægasta sem þú gerir er að sýna hlýju, hlusta, leyfa unglingnum að tala óhindrað og sýna skilning á upplifun hans. Einnig er gott að fara sparlega með samlíkingar eins og hvernig aðstæður voru þegar þú varst yngri. Það getur aukið á þá tilfinningu að unglingnum finnist þú ekki skilja sig og að þú sért að gera lítið úr hans upplifun. Þetta er dæmi sem getur ýtt undir að gjá myndist á milli ykkar og að unglingurinn leiti síður til þín aftur.
Við þurfum að leggja skýrar línur varðandi þær kröfur sem við gerum til þeirra. Unglingur sem býr við skýran ramma leikur sér innan rammans og veit hvað er ætlast til af honum þó svo hann geti dansað á línunni stöku sinnum. Jafnvel getur hann gert mistök en ef ramminn er skýr er hægðarleikur að kippa honum aftur upp á sporið. Mistök sem unglingar gera geta verið eðlileg og í samræmi við þeirra heilaþroska. Unglingur sem býr ekki við neinn ramma og veit ekki hvar línurnar liggja er í meiri hættu á að taka stærri áhættur á lífsins vegi í átt að auknu sjálfstæði.
En á sama tíma og það er mikilvægt að hafa skýran ramma þurfa foreldrar að huga að því hvernig þeir ætli að ýta undir sjálfstæði og færni sem er nauðsynleg til að unglingurinn þroskist í heilsteyptan einstakling. Foreldrar hlífa börnum og unglingum oft fyrir því sem þau þurfa að kunna og gera of mikið fyrir þau en um leið eru þau svift tækifærinu á að læra hluti sem þau þurfa að kunna. Þetta getur átt við flesta þætti í daglegu lífi en dæmi um þetta er skipulag, heimilishald, og upplýsingagjöf í veikindum. Það er gott veganesti fyrir börn og unglinga að læra að fjölskyldan hjálpast að í lífsins verkefnum.
Ef samskiptin ganga illa þarf að hugsa hlutina uppá nýtt. Ef ekki er gripið inní eru ákveðnar líkur á að gjáin sem nú þegar hefur myndast eigi eftir að aukast. Samskiptamátinn sem er í gangi er greinilega ekki að virka og því þarf að breyta um takt. Það er mín reynsla að oft þurfi að gera litlar breytingar í samskiptum til þess að samskipti fari að ganga betur.