Kraftur ásamt Yoga Shala og Yoga Moves heldur einstakan núvitundarviðburð í Hörpu á föstudaginn.
Á föstudaginn, þann 20. september, munu þau DJ Margeir og DJ YAMAHO þeyta skífum í svokölluðu núvitundarpartýi sem haldið verður í Hörpu. Núvitundarpartýið er haldið til styrktar stuðningsfélaginu Krafti.
Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, heldur kvöldið í samstarfi við Yoga Shala og Yoga Moves.
„Þar mun fólk koma saman og fá geggjaða útrás í dansi, jóga, hugleiðslu og tónheilun. DJ Margeir og YAMAHO þeyta skífum í partýinu en Tómas Oddur og Ingibjörg Stefáns jógakennarar munu leiða jóga, danspartý sem og hugleiðslu og tónheilun í lokin,” segir í tilkynningu um viðburðinn. Mælt er með að mæta í þægilegum fötum og með jógadýnu á viðburðinn.
„Þar sem Kraftur er 20 ára á þessu ári þá fannst okkur tilvalið að halda afmælispartý en með núvitund og núið í huga. Koma saman og njóta þess að vera í núinu, dansa, gera jóga og hugleiða. Er lífið ekki þess virði að við gefum okkur tíma og rými til að fagna því sérstaklega, eitt andartak,“ er haft eftir Huldu Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Krafts.
Viðburðurinn hefst klukkan 20.00 í Norðurljósasal í Hörpu og kostar miðinn 3.900 krónur. Hægt er að kaupa miða á vef Hörpu.
Þess má geta að allir sem fram koma í partýinu gefa vinnu sína og rennur allur ágóði af því í starf Krafts.