Erla Bolladóttir furðar sig á því að ekki eigi að skoða rannsóknina í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu ofan í kjölinn.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dómsmálaráðherra hefur skipað Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á Norðurlandi eystra, settan ríkissaksóknara í Guðmundar- og Geirfinnsmáli, eins og fram kom í fréttum í dag. Hefur settur ríkissaksóknari til athugunar hvort ástæða sé til að taka hvarf Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar til rannsóknar að nýju, eftir sýknudóm Hæstaréttar í haust. Erla Bolladóttir, sem var ein sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, segir vonbrigði að ekki skuli hafa verið rætt hvort sjálf rannsóknin verði skoðuð.
„Auðvitað er eðlilegt að skoða möguleikann á því að rannsaka þessar vísbendingar sem þeir eru með og snúa að hvarfi mannanna,“ segir hún. „Mér finnst aftur á móti grunsamlegt að ekki skuli vera talað um að rannsaka sjálfa framkvæmdina á málinu. Af hverju virðast menn vera á harðahlaupum fram hjá rannsóknar- og dómstólaferlinu? Af hverju forðast menn að ræða sjálfa rannsóknina?“
„Mér finnst … grunsamlegt að ekki skuli vera talað um að rannsaka sjálfa framkvæmdina á málinu. Af hverju virðast menn vera á harðahlaupum fram hjá rannsóknar- og dómstólaferlinu?“
Erla var í stóru viðtali í Mannlífi fyrir skemmstu. Þar gagnrýndi hún rannsóknina harðlega og benti á að nýjir þýskir þættir, Skandall, sem fjalla meðal annars um rannsóknina, sýni vel þá undarlegu afgreiðslu sem málið fékk á sínum tíma hjá lögreglunni, fyrst í Keflavík en síðan í Reykjavík. Hún undirstrikar nú í samstali við blaðamann að allt sem komi fram um upphafsrannsókn á hvarfi Geirfinns í þáttunum Skandall sé aðgengilegt á Netinu í gögnum málsins, nánar tiltekið á vefsíðunni www.mal214.is.
„Allar uplýsingarnar eru á þessari síðu, hver einasta skýrsla sem var tekin í þessu máli og hvert einasta skjal – sem ekki var falið,“ tekur hún fram og bætir við að sama hvar litið er á þessar skýrslur rannsóknarinnar í Keflavík þá megi sjá á dagsetningum skýrslna og fjölda annarra þátta að ekki er allt með felldu varðandi hegðun rannsóknaraðila.
Hún segir að þótt sýknudómur hefði fallið í Hæstarétti síðastliðið haust og að öllum sé orðið ljóst það harðræði sem beitt var til þess að ná fram sekt á sínum tíma, hafi enginn sem stóð að rannsókn málsins þurft að svara fyrir þær gjörðir.
„Ég er nú ekki mikið fyrir samsæriskenningar, – en sú spurning leitar á hugann hvort núna sé verið að tala svona mikið um upphæðir skaðabóta og hvarf mannanna tveggja til að forðast að ræða sjálfa rannsóknina á sínum tíma. Til dæmis hef ég borið fólk þungum sökum vegna rannsóknarinnar og það er eins og ég hafi bara ekki sagt nokkurn skapaðan hlut,“ segir hún og vísar þar meðal annars í fyrrnefnt viðtal.
Hægt er að lesa viðtalið við Erlu hér.