Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Erla slegin óhug: „Þetta er slóð óhugnaðar alla leið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Erla Bolladóttir um nýjustu uppljóstranir í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

„Þetta er ítrekun á öllum mínum vonbrigðum með aðkomu stjórnvalda að þessu máli, sem er til mikillar skammar á öllum stigum þess. Bara öllum. Þetta er slóð óhugnaðar og vonbrigða alla leið,“ segir Erla Bolladóttir, um þær fréttir að íslensk yfirvöld hafi aldrei með formlegum hætti óskað gagna eða aðstoðar þýskra yfirvalda við uppgjör Guðmundar- og Geirfinnsmálsins þrátt fyrir aðkomu þýska rannsóknarráðgjafans Karl Schütz að rannsókn málsins, eins og kom fram í Mannlífi í dag. Þar var jafnframt greint frá að þessar upplýsingar hefðu komið fram í svari við fyrirspurn Andrejs Hunko, þingmanns Die Linke í þýska þinginu.

Erla segist jafnframt hafa verið slegin óhug við að sjá á prenti umfjöllun um athafnir Karls Schütz, mannsins sem er sagður hafa kennt íslenskum lögreglumönnum pyntingar sem voru nýttar við yfirheyrslur yfir sakborningum í málinu.
„Samskipti mín við þennan mann rifjast upp, meðal annars hvað hann var þaulskipulagður í að spila inn á tilfinningar mínar á óhugnalegan hátt, bæði í yfirheyrslunum og utan þeirra. Nokkuð sem ég gleymi seint. Bara það eitt að sjá nafn hans í blaðinu ykkar rifjar upp óhugnað,“ segir hún, en í viðtalinu við þingmanninn Hunko í Mannlífi í dag segir hann meðal annars ótrúlegt til þess að hugsa að pyntingar skuli hafa verið notaðar til að fá fram játningar í málinu.

Eins og fram kemur í umræddu viðtali er talið að þýsk lögregluyfirvöld gætu átt nokkuð af gögnum er varða rannsókn málsins á áttunda áratugnum. Erlu finnst grátlegt að heyra það og telur það vera lýsandi fyrir vinnubrögð íslenskra stjórnvalda að þau skuli aldrei hafa séð ástæðu til að kalla eftir þeim.
„Einmitt þegar ég hélt að þau gætu ekki málað sig meira út í horn í þessu þá kemur þetta á daginn. Stjórnvöld hafa haft nægan tíma til að hugsa málið og ljúka því á þann hátt að allir geti verið sáttir. En svo virðist að frá upphafi snúist öll viðleytni íslenskra stjórnvalda um að loka augum og eyrum og vona að þetta mál hverfi. Það hefur vantað alla virðingu fyrir því fólki sem hefur mátt líða fyrir óforsvaranlega meðferð á öllu stigum í áratugi. Betra væri fyrir alla ef stjórnvöld áttuðu sig á þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir og öxluðu hana.“

Þess má geta að Erla var í stóru viðtali í Mannlífi fyrr á árinu. Þar gagnrýndi hún rannsóknina harðlega og benti á að nýjir þýskir þættir, Skandall, sem fjalla meðal annars um rannsóknina, sýni vel þá undarlegu afgreiðslu sem málið fékk á sínum tíma hjá lögreglunni, fyrst í Keflavík en síðan í Reykjavík.

Lestu um nýjustu vendingar í málinu hér.
Ítarlegri umfjöllun verður svo um það um helgina.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -