Fimmtudagur 2. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Erlendir bankar tapa milljörðum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

10 árum eftir að Landsbankinn féll hefur skiptum á eignarhaldsfélaginu Samson, aðaleiganda bankans, verið lokið. Samson var fjárfestingafélag í eigu feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar og eignaðist ráðandi hlut í Landsbankanum við umdeilda einkavæðingu hans árið 2002. Björgólfur Thorog tengdir aðilir voru um langt skeið stærstu lántakar bankans.

Í Lögbirtingarblaðinu kemur fram að lýstar kröfur í búið námu 77,4 milljörðum kóna, en ekki fengust nema 6,5 milljarðar upp í þær, eða sem nemur 8,6%. Samson var lýst gjaldþrota þann 12. nóvember 2008.

Að því er Stundin greinir frá eru það fyrst og fremst fjármálastofnanir sem tapa á gjaldþroti Samson. Þannig tapaði hinn suður-afríski Standard Bank 12,8 milljörðum króna og hinn þýski Commerzbank 23,8 milljörðum. Þá voru kröfur Glitnis 9 milljarðar króna og gamla Landsbankans 5 milljarðar.

Segja má að skiptalok á Samson séu einn síðasti anginn í uppgjöri Björgólfs Thors við fjármálahrunið 2008. Björgólfsfeðgar voru fyrir hrun meðal helstu burðarása í íslensku viðskiptalífi fyrir hrun og áttu stóra hluti í félögum og Eimskip, Straumi-Burðarási, Gretti fjárfestingafélagi svo og Landsbankanum.

Öll þessi félög urðu gjaldþrota og kröfuhafar töpuðu miklum fjárhæðum og hluthafar Landsbankans og Straums Fjárfestingabanka töpuðu öllu sínu hlutafé en tugir þúsunda Íslendinga voru hluthafar í umræddum félögum Björgólfur eldri lýsti sig gjaldþrota árið 2009 og var það eitt stærsta persónlega gjaldþrot Evrópu á sínum tíma. Alls var lýst kröfum upp á 85 milljarða króna í bú Björgólfs eldri, en kröfuhafar fengu aðeins 35 milljónir greiddar upp í lýstar kröfur eða 0.04%. Staða Björgólfs Thors var öllu flóknari og tók nokkur ár að vinna úr skuldum hans. Sjálfur lýsti hann því að persónulegt tjón hans vegna hruns bankakerfisins hafi numið nærri 100 milljörðum króna. Ætla má að fjárhagslegt tap annarra hluthafa og kröfuhafa í skráðum félögum í hans eigu, þ.m.t. Landsbanki Íslands, Eimskipafélag Íslands og Straumi Fjárfestingabanka hafi numið hundruðum milljarða króna. Skuldir félaga honum tengdum voru margfalt hærri en nú, 10 árum síðar, er Björgólfur Thor aftur kominn í hóp ríkustu manna heims og hafa tugi milljarða afskriftir félaga í hans eigu ekki bein áhrif á hann.

Hátt fall og upprisa

- Auglýsing -

Árið 2007 ákveður Björgólfur Thor að kaupa út alla hluthafa lyfjafyrirtækisins Actavis og fékk til þess 4 milljarða evra lán frá Deutsche Bank. Lánið stóð í 5,8 milljörðum kóna árið 2009 en fall íslenska fjármálakerfisins þýddi að Björgólfur Thor var kominn í afar þrönga stöðu. Við tók afar flókin skuldaúrlausn því ekki eingöngu var fjárhagsleg framtíð Björgólfs Thors í húfi, heldur hefði þýski bankinn tapað milljörðum evra ef Actavis hefði orðið ógjaldfært. Niðurstaðan varð sú að Deutsche Bank tók Actavis yfir samhliða því sem unnið var að skuldauppgjöri við þýska bankann. Í apríl 2012 var svo tilkynnt að lyfjafyrirtækið Watson hefði eignast Actavis og átti það stóran þátt í skuldauppgjöri Björgólfs við Deutsche Bank.

„Allar skuldir greiddar“

Það er svo í ágúst 2014 sem Björgólfur Thor sendir frá sér yfirlýsingu þar sem hann tilkynnir að skuldauppgjöri hans og Novators, fjárfestingafélags hans, sé að fullu lokið. Alls hafi hann greitt 1.200 milljarða króna til lánardrottna, þar af 100 milljarða til íslenskra banka og dótturfélaga þeirra. Í þessu ferli hafi nánast allt verið sett að veði, svo sem húseignir hans í Reykjavík og á Þingvöllum hans, einkaþotan og snekkjan.

- Auglýsing -

„Ég var alla tíð ákveðinn í að ganga frá uppgjörinu með sóma,“ sagði Björgólfur Thor í yfirlýsingu sem gefin var út á þeim tíma. „Til að svo mætti verða þurfti mikla og þrotlausa vinnu til að hámarka virði þeirra eigna sem lágu til grundvallar uppgjörinu. Þegar tilkynnt var um uppgjör mitt í júlí 2010 kom fram að skuldir myndu verða gerðar upp að fullu og ekki gefnar eftir. Við það hef ég staðið.“ Fjárhagslegar afskriftir félaga í hans eigu virðast haldið utan við þetta „heildaruppgjör“ Björgólfs Thors líkt og 70 milljarða króna afskrift kröfuhafa Samson sýnir.

Óhætt er að segja að síðan þá hafi hagur Bjögólfs Thors vænkast. Hann hefur hagnast á hlutum sínum í lyfjageiranum, virði pólska fjarskiptafyrirtækisins Play hefur aukist mjög og á dögunum var tilkynnt að Novator muni hagnast um allt að 20 milljarða króna við sölu á tölvuleikjaframleiðandanum CCP til suður-kóreska fyritækisins Pearl Abbys.

Umsvif Björgólfs Thors á Íslandi eru jafnframt þónokkur. Þannig er hann eða félög honum tengd með eignarhluti í gagnaveri Verne Global og verktakafyrirtækinu Arnarhvoli ehf. Þá hefur auðmaðurinn verið orðaður við Grósku hugmyndahús, Ásbrú ehf., flugfélagið Wow air ehf. og lánveitingar til Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., útgefanda DV, svo fáein dæmi sé nefnd.

Björgólfur Thor er aftur kominn á lista Forbes yfir ríkustu menn heims. Tímaritið metur eignir hans á 1,8 milljarða dollara og segir þar að hann sé eini milljarðamæringur Íslands (í dollurum talið). Björgólfur Thor er skráður með lögheimili sitt í Bretlandi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -