Rússneski milljarðamæringurinn Roman Abramovich er kominn til Kænugarðs í Úkraínu í þeim tilgangi að blása lífi í glæður friðarviðræðna milli Rússa og Úkraínumanna.
Samkvæmt frétt bandarísku fréttaveitunnar Bloomberg um málið, sem byggð er á ónefndum heimildarmönnum, hefur Abramovich nú þegar fundað með samningamönnum Úkraínumeginn í þessum tilgangi.
Dáleiki hefur verið milli milljarðamæringsins og Vladimir Putin en hann sætir nú hörðum viðskiptaþvingunum vegna þessa, á Vesturlöndum. Síðustu vikur hefur hann verið óopinber milligöngumaður stjórnvalda í Kreml og Kænugarði. Nýlega lýsti Putin því yfir að friðarviðræðurnar væru „komnar í blindgötu“ og forseti Úkraínu, Volodymyr Zelensky sagði í gær að ef Rússar létu verða af hótunum sínum um að tortíma varnarsveitum Úkraínu í Mariupol, mætti gleyma frekari friðarviðræðum.