Sunnudagur 24. nóvember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Að vera eða ekki vera … sekur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ákærurnar gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta og meðferð málsins í þinginu endurspeglar nýjan raunveruleika og hina miklu sundrung sem ríkir í bandarísku samfélagi og stjórnmálum. Niðurstaðan virðist fyrir fram gefin en málið gæti þó reynst afdrifaríkt til lengri og skemmri tíma.

„Það ríkti líka sundrung þá en stóri munurinn er að nú skortir sameiginlegan skilning á raunveruleikanum.“ Þetta segir demókratinn Zoe Lofgren um andrúmsloftið á bandaríska þinginu þegar Bill Clinton var ákærður árið 1998 og nú, þegar Donald Trump hefur verið ákærður. Lofgren er einn fimm þingmanna sem átti sæti í allsherjarnefnd neðri deildar þingsins þegar Clinton var ákærður fyrir að hafa logið eiðsvarinn um kynferðislegt samband hans við Monicu Lewinsky, og situr enn. Fulltrúadeildin sendi í gær ákærur á hendur Trump til öldungadeildarinnar en hann er sakaður um að hafa þrýst á úkraínsk stjórnvöld að grafa upp óhróður um andstæðinga sína heima fyrir með því að tefja greiðslu fjárhagsaðstoðar vegna öryggismála.

Bandarískir miðlar hafa síðustu daga birt greiningar og samanburð á málunum tveimur og segja einna helst vekja athygli að þrátt fyrir að réttarhöldin yfir Clinton á sínum tíma hafi þótt afar pólitísk sé afstöðumunur milli flokkanna enn meira áberandi nú. Árið 1998 studdi 31 fulltrúadeildarþingmaður Demókrataflokksins að rannsaka framgöngu Clintons og margir flokksbræðra forsetans gagnrýndu hann harðlega, þrátt fyrir að þeir styddu ekki sakfellingu eða embættismissi. Trump hefur hins vegar reynst hafa ótrúlegt vald yfir þingmönnum Repúblikanaflokksins og ekki einn einasti greiddi atkvæði með sakfellingu í neðri deildinni.

Lítil von um málefnalega meðferð

Eitt munu Clinton og Trump eiga sameiginlegt, segja spekúlantar. Trump, líkt og Clinton, verður sýknaður af öldungadeildinni. Þingdeildin er skipuð 53 repúblikönum, 45 demókrötum og tveimur óháðum. Þingmennirnir munu á næstu dögum sverja þess eið að vera hlutlægir í hlutverkum sínum sem kviðdómendur en Mitch McConnell, leiðtogi meirihlutans, hefur frá upphafi verið afar gagnrýninn á rannsóknina og ákærurnar á hendur forsetanum og gefið litla von um að umfjöllun öldungadeildarinnar verði á málefnalegum nótum. Hann hefur m.a. þverskallast við því að verða við óskum nokkurra samflokksmanna sinna um að heimila vitnaleiðslur við meðferð málsins en þrátt fyrir ótrúlega hollustu repúblikana við forsetann óttast margir þeirra að öll viðleitni til að kæfa málið niður muni koma niður á flokknum, m.a. vegna almenningsálitsins. Vinsældir Trumps eru til að mynda mun minni en vinsældir Clintons á sínum tíma, 44% samanborið við 73%, og þá óttast margir um þingsætið sitt í næstu kosningum ef þeir neyðast til að kasta trúverðugleika sínum á glæ fyrir velþóknun forsetans.

Báðir forsetar voru ákærðir fyrir að hafa lagt stein í götu rannsakenda.

Hvað er og verður

- Auglýsing -

Nancy Pelosi, leiðtogi meirihlutans í fulltrúadeildinni, sagði í vikunni að Trump hefði með framgöngu sinni gerst sekur um árás á bandarísku stjórnarskrána. „Við lítum þetta mjög alvarlegum augum. Þetta er ekki persónulegt. Þetta er ekki pólitískt. Þetta snýst ekki um flokka. Þetta er föðurlandsást,“ sagði hún. McConnell sagði ákvörðun neðri deildarinnar hins vegar „fordæmalausa og hættulega.“ Báðir flokkar segjast óttast það fordæmi sem málið setur; demókratar segja ótækt að forsetinn fái að komast upp með þá hegðun sem hann hefur sýnt en repúblikanar saka demókrata um að hafa gert ákæruvald þingsins gagnvart forsetanum að pólitísku vopni.

Málið gegn Clinton átti sér stað á tíma þegar vinsældir Fox News fóru vaxandi og andstæðingar forsetans gátu lekið samsæriskenningum og slúðri á Internetinu. Við blasti nýr pólitískur raunveruleiki og ljótleiki, segir Peter Baker, blaðamaður New York Times. Sundrungin í samfélaginu og gagnvart raunveruleikanum var hins vegar rétt að slíta barnsskónum. „Samsæriskenningarnar eru út um allt og samsæriskenningasmiðir í Hvíta húsinu og á þingi. Clinton hafði kost á því að koma fram fyrir sjónvarpsmyndavélarnar en hann hafði ekki Twitter til að senda út 123 skilaboð á dag eða Fox News til að hamra á hans útgáfu af atburðum kvöld eftir kvöld,“ segir Baker.

Sannleikurinn á tímum Trump

- Auglýsing -

Það má sjá fyrir sér að niðurstaða þingsins í málinu gegn Trump muni hafa margvíslegar afleiðingar. Valdatíð Trumps og stjórnarhættir eru fordæmalausir og margir velta fyrir sér hvaða þýðingu það mun hafa ef nálgun hans og framganga verður látin viðgangast og í raun samþykkt sem ásættanlegt norm. „Forsetinn er ekki hafinn yfir lög,“ sagði Pelosi. „Hann verður gerður ábyrgur. Hann hefur verið fundinn sekur. Hann hefur verið fundinn sekur fyrir lífstíð. Þeir geta aldrei tekið það til baka.“

Sömu sögu má segja um Clinton en málið gegn honum gerði lítið til að draga úr vinsældum hans eða varpa skugga á arfleifð hans sem forseta. Þeirri spurningu er hins vegar ósvarað hvaða áhrif málaferlin munu hafa á möguleika Trumps á endurkjöri. Framganga demókrata gegn forsetanum mun að öllum líkindum styrkja stöðu hans meðal hörðustu stuðningsmanna hans hvernig sem fer en stjórnmálaspekingar segja marga repúblikana greinilega uggandi yfir áhrifum málsins á kjósendur sem eru ekki jafneinarðir í stuðningi sínum. Þeir hafa þegar hafnað tillögu Trumps um að vísa ákærunum frá án umfjöllunar. Þá er mikil eftirvænting í loftinu vegna væntanlegrar ákvörðunar um að kalla John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Trumps, til vitnis en hann nýtur virðingar þvert á pólitískar línur.

„Sannleikurinn er óumbreytanlegur. Illgirnin kann að gera atlögu að honum og fávísin hæða hann en, á endanum, þá stendur hann,“ hefur lagaprófessorinn Laurence H. Tribe eftir Winston Churchill í Boston Globe. Hvort það á við um Trump á eftir að koma í ljós.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -