Ísrael verður að hætta öllum hernaðaraðgerðum sínum í borginni Rafah, vegna þess að þær hafa í för með sér of mikla hættu fyrir palenstínsku þjóðina. Þetta er niðurstaða Alþjóðadómsstólsins í Haag.
Dómstóllinn kvað upp niðurstöðu sína eftir hádegi í dag en um er að ræða bráðabirgðaúrskurð í máli Suður-Afríku gegn Ísraelsríki.
Ísrael er einnig skipað í úrskurðinum, að opna landamærin sem liggja frá Rafah að Egyptalandi, svo tryggja megi mannúðaraðstoð til borgarinnar. Þá var Ísrael gert að koma fyrir dómstólinn eftir mánuð og gefa skýrlu um það hvernig eða hvort ríkið hafi framfylgt úrskurðinum.
Ísrael getur ekki áfrýjað úrskurði dómsstólsins þar sem ríkið er ekki með aðild að honum. Þrátt fyrir að úrskurðir dómstólsins séu lagalega bindandi, hefur hann ekki heimild til að framfylgja þeim með valdi. Það er þó hægt að gera með því að bera úrskurðina fyrir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna en ólíkt ályktunum Allsherjaþingsins, eru ályktanir Öryggisráðsins bindandi. Þýðir það að öll aðilarríki Sameinuðu þjóðanna hafa gefið samþykki sitt um að vera bundin af ákvörðunum ráðsins og vera tilbúin að framkvæma þær ákvarðanir.
Líkurnar á því að ályktun falli gegn Ísrael í Öryggisráðinu eru þó hverfandi í ljósi þess að Bandaríkin hafa hvað eftir annað beitt neitunarvaldi sínu í ráðinu, til að verja Ísrael.
Frá því á síðasta ári hefur Suður-Afríka sótt mál gegn Ísrael fyrir Alþjóðadómsstólinn en þar er Ísrael sakað um að fremja þjóðarmorð á Palestínumönnum í árásarstríði sínu gegn Hamas-liðum. Ísrael hefur krafist þess að málið gegn þeim verði fellt niður og segjast vera í fullum rétti til að verja sig gegn Hamas.