Föstudagur 27. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Assange óheimilt að áfrýja framsalsúrskurði: „Það er búið að ákveða að murka lífið úr Julian“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nýlega úrskurðaði dómari í Bretlandi að Julian Assange blaðamanni væri óheimilt að áfrýja framsalsúrskurði undiréttar. Kristinn Hrafnsson, vinur Assange og ritstjóri Wikileaks er ævareiður vegna þessa enda er verið að refsa blaðamanni fyrir að vinna vinnuna sína.

„Hann heitir Jonathan Swift, dómarinn sem ákvað eftir 8 ½ mánaða yfirlegu að úrskurða á dögunum að Julian Assange væri óheimilt að áfrýja framsalsúrskurði undirréttar,“ skrifaði Kristinn í magnaðri færslu á Facebook sem hefur vakið verðskuldaða athygli. Og hann hélt áfram:
„Hinn æruverðugi Swift dómari (eins og hann er titlaður) var ekki að verja mörgum orðum í rökstuðninginn. Ekkert um þau nýju gögn sem lögð voru fram sem sýna glöggt að Julian á ekki möguleika á réttlátri málsmeðferð í Bandaríkjunum. Ekki orð um að verið er að framselja hann í hendur leyniþjónustu sem hafði uppi áform um að taka hann af lífi. Aðeins snöggsoðin og fýluleg aðfinnsla um að yfirhöfuð væri verið að ónáða réttinn með þessu erindi. HANN teldi Julian hafa fengið fyrirtaks málsmeðferð í undirrétti og því þarflaust að ónáða áfrýjunarrétt með því að fá að leggja mat undirréttardómara undir High Court.“

Kristinn segir að Assange hafi aðeins einn möguleika eftir í stöðunni.

„Það er fáheyrt í svo mikilsverðu máli að hafna áfrýjun. Julian hefur þann eina möguleika núna að biðja tvo aðra dómara eftir helgi um endurskoðun á þessum úrskurði Swifts. Það gæti verið skjótafgreitt erindi. Gæti þess vegna verið afgreitt fyrir réttarhlé á miðju sumri. Þá eru öll sund lokuð fyrir Julian í Bretlandi.“

Því næst snéri Kristinn sér að stjórnvöldum í Bretlandi sem hann segir að sé ævareið Mannréttindadómstóli Evrópu fyrir afskiptasemi.

„Þó svo að Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) ákveði að skoða málið og fari fram á frestun framsalsins (á grundvelli reglu 39 sem Bretland er enn bundið af) er ekkert víst að Breska stjórnin hlýti því. Íhaldsstjórnin vill losna undan þessum dómstól og kvartar undan inngripum í fullveldi. Sunak forsætisráðherra og Suella Braverman, innanríkisráðherra, eru ævareið yfir því að MDE skuli hafa stöðvað með inngripum áform um að nauðungarflytja hælisleitendur í Bretlandi til Rúanda. Það var einmitt Swift dómari sem ákvað að það mál skyldi ekki stöðvast í áfrýjunarrétti í London og er efalaust líka ævareiður MDE. Eins og allt gerspillta valdið.
Eina erindið sem Sunak átti á leiðtogafundinn í Reykjavík var einmitt að að kvarta yfir Evrópskum mannréttindainngripum í málefni Bretlands í gegnum MDE. Hann flutti umkvörun sína, bað Evrópu að vera ekki að skipta sér af afgreiðslu þeirra á eigin hælisleitendum og flaug heim samdægurs.
Það er eins víst að Sunak stjórnin gefi skít í MDE og setji Julian beint í fangaflug til Bandaríkjanna. Samningar skipta engu máli lengur. Mannréttindi skipta heldur engu máli.
Íhaldsstjórnin vill fá að byggja upp sitt fasistaríki í friði.

Þið á Íslandi vitið vel að innan áskriftarflokks dómsmálaráðuneytis hafa verið öfl sem munu horfa öfundaraugum til slíkrar röggsemi Breta. Líklegast fylgja á eftir. Losna við mannréttindakvabbið frá MDE.“

- Auglýsing -

Ef Assange verður framseldur til Bandaríkjanna, líkt og verður að teljast ansi líklegt úr þessu, bíður hans allt að 175 ára fangelsisdómur.

„Í Bandaríkjunum bíður ákæra upp á mest 175 ára fangelsisvist. Það tekur að minnsta kosti tvö ár að undirbúa réttarhöld. CIA getur krafist þess að Julian verði þann tíma í algerri einangrun. Ef Julian tórir fram að réttarhöldunum verða þau fyrir kviðdómi í austurhluta Virginíu, steinsnar frá öllum helstu valdastofnunum landsins. Ríkisvaldið fer yfirleitt þangað með ákærur á grundvelli njósnalaga. Af því að kviðdómurinn er yfrleitt skipaður fólki með beina eða óbeina hagsmuni tengdum nálægum stjórnarstofnunum. Þessi dómstóll er kallaður Spy Court, af því þangað fara njósnalöggjafarmálin. Á þeim bæ er hlutfall sakfellinga í slíkum málum giska hagfellt ákæruvaldinu.

100%.“

Segir Kristinn að búið sé að „ákveða að murka lífið úr Julian“.

- Auglýsing -

„Það er búið að ákveða að murka lífið úr Julian. Með hægfara sálrænum pyntingum sem hann hefur verið beittur (og um það úrskurðað af fulltrúa Sameinuðu þjóðanna í þeim málaflokki). Það skiptir engu þó að öll helstu mannréttindasamtök heimsins leggi pressu á Bandaríkin. Það skiptir engu máli þó að forsætisráðherra Ástralíu fari fram á það við Biden forseta að láta af þessari geðveiki. Það skiptir engu máli þó að þeir forsetar sem ég hef hitt geri opinberlega kröfu um hans lausn, Obrador í Mexikó, Pedró í Kólumbíu, Lula í Brasilíu, Fernandez í Argentínu og Arce í Bólivíu. Það skiptir heldur engu máli hvað þið segið á Íslandi.“

Lokaorð Kristins eru sterk:

„Ykkar stjórnvöld steinþegja líka í skömm. Sem og stjórnvöld um alla Evrópu. Ærandi skammarleg þögn ríkir um mál Julians meðal ráðamanna þar á meðan lífið er murkað úr margverðlaunuðum blaðamanni fyrir framan nefið á þeim.
Hernaðarstórveldið hefur ákveðið að það þurfi að refsa þeim sem framdi þann glæp að stunda alvöru blaðamennsku og opinbera um stríðsglæpi þess. Það þarf að setja fordæmi.
Hæfileg refsing er dauði.

Fasisminn vill ekkert ónæði.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -