Átta manns létust eftir skotárás sem átti sér stað í ríkissal votta Jehóva í Hamborg í Þýskalandi í gærkvöldi. Árásarmaðurinn er sagður vera einn hinna látnu og telur lögregla að hann hafi verið einn að verki. Fimm aðrir særðust í árásinni en samkvæmt heimildum AP-fréttastofu var lögregla á vettvangi við rannsóknarstörf í alla nótt.
Lögreglu barst tilkynning um árásina klukkan korter yfir níu í gærkvöldi og var aðkoman sláandi. Fólk var með skotsár á jarðhæð hússins og heyrði lögregla byssuhvell á hæðinni fyrir ofan. Þar fundu þeir alvarlega særðan mann sem er talinn vera árásarmaðurinn. Íbúar í nágrenninu voru óttaslegnir og heyrðu fjölda byssuhvella. Einn íbúanna myndaði mann sem skaut í gegnum glugga á annarri hæð hússins. Vottar Jehóva sögðu samfélagið slegið yfir árásinni á trúbræður þeirra eftir guðsþjónustu í Hamborg en ströng skotvopnalöggjöf er í Þýskalandi.