Einn vinsælasti sjónvarpsþáttastjórnandi Bandaríkjanna er látinn
Bob Barker, fyrrum stjórnandi The Price is Right, er látinn, TMZ greinir frá. Hann var 99 ára gamall og hefði orðið 100 ára í desember. The Price is Right er bandarískur sjónvarpsþáttur sem hefur verið í sýningu í áratugi en Bob Barker stjórnaði honum frá 1972 til 2007. Í þættinum gátu venjulegir Bandaríkjamenn unnið til fjölbreyttra verðlauna.
Sjónvarpsmaðurinn er þó líklegast þekktastur á Íslandi fyrir hlutverk sitt í myndinni Happy Gilmore þar sem hann leikur á móti Adam Sandler. Í myndinni leikur hann sjálfan sig og lemur persónu Adam Sandler í klessu en Bob Barker var þekktur sem einn vinalegasti maður sem birst hefur á sjónvarpsskjám.