Ný lög í Suður-Kóreu banna slátrun og sölu hundakjöts en hefur það lengi tíðkast þar í landi að borða hunda. Markmiðið er að útrýma gamla siðnum fyrir árið 2027 en samkvæmt nýjum lögum er bannað að rækta og slátra hundum til manneldis. Auk þess er ólöglegt að selja og dreifa kjötinu en BBC fjallaði um málið. Neysla kjötsins er ekki refsiverð en þeir sem slátra hundunum gætu átt yfir höfði sér allt að þriggja ára fangelsi.
Þeir sem hafa ræktað hunda og slátrað til manneldis fá þrjú ár til þess að aðlagast nýjum lögum sem taka gildi árið 2027. Um það bil 1.600 veitingastaðir í Suður-Kóreu höfðu hundakjöt á matseðlum sínum á síðasta ári en kjötið er heldur óvinsælt meðal ungs fólks í landinu.