Refur, sem hafði veið á vappi við bandaríska þinghúsið í nokkra daga, hefur verið aflífaður. Refurinn vakti mikla lukku á samfélagsmiðlum og var meðal annars stofnaður Twitter aðgangur í hans nafni.
„Þekkir einhver góðan lögfræðing“ – „Þið munuð aldrei ná mér lifandi!,“ er meðal þess sem stóð á Twitter aðgangi refsins.
Eftir að refurinn hafði verið fangaður sendi heilbrigðiseftirlitið í Washington DC frá sér tölvupóst. Þar kemur fram að refurinn, sem var tófa, hafi verið smitaður af hundaæði og hafði bitið níu manns.
Í morgun fundust yrðlingar tófunnar en veitti heilbrigðiseftirlitið ekki upplýsingar um það hvort þeir hefðu einnig verið aflífaðir.
Ár hvert eru um 120 þúsund sýni úr dýrum send til greiningar fyrir hundaæði og greinast um sex prósent þeirra jákvæð. Breski fréttamiðillinn The Guardian fjallaði um málið en engir fleiri refir hafa sést við þinghúsið.