Lögreglumaður í Oklahoma borg í Bandaríkjunum hefur verið sendur í leyfi eftir að hafa skellt eldri manni í jörðina.
Lögreglumaðurinn var að sekta hinn 70 ára gamla Lich Vu fyrir að taka ólöglega u-beygju og var að útskýra fyrir honum umferðarreglurnar þegar Vu sló lögreglumanninn í bringuna og sagði honum að þegja. Miðað við myndband sem birt hefur verið af atvikinu virðist höggið hafa verið létt en lögreglumaðurinn brást við með því að skella Vu harkalega í jörðina og handjárna hann. Lögreglumaðurinn hringdi í framhaldinu á sjúkrabíl.
Teresa Vu, dóttir mannsins, sagði í tilkynningu um handtökuna að svona ætti ekki að koma fram við einhvern sem væri 150 sentimetrar á hæð og 52 kg eftir bílslys en keyrt var á bíl Vu þegar hann tók ólöglegu u-beygjuna.
Samkvæmt dóttur mannsins blæddi inn á heila föður hennar og brákaðist hann á hálsi.
Málið er í rannsókn og verður lögreglumaðurinn í leyfi á meðan sú rannsókn stendur yfir.