Jarðarför Ivönu Trump, fyrrum eiginkonu fyrrum forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, fór fram í gær í St. Vincent Ferrer Roman Catholic Church í New York. Donald og Melania eiginkona hans mættu á jarðarförina ásamt börnum Ivönu og Donalds.
Samkvæmt Entertainment Tonight var fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump og núverandi eiginkona hans, Melania Trump meðal syrgjenda í jarðarförinni. Mætti forsetinn fyrrverandi í dökkbláum jakkafötum en Melania var í svörtum kjól.
Jarðarförin var haldin innan við viku eftir að Ivana lést á heimili sínu í New York, 73 ára að aldri. Lést hún af völdum áverka sem hún hlaut eftir að hafa dottið niður stiga.
Donald og börnin brugðust við andlátinu á samfélagsmiðlum en forsetinn fyrrverandi sagði að fyrrverandi kona hans hefði verið „Yndisleg, falleg og ótrúleg kona, sem lifði frábæru og hvetjandi lífi.“
Ivanka skrifaði á samfélagsmiðlana að hún væri „miður sín“ vegna andláts móður hennar og bætti við: „Mamma var frábær, heillandi, ástríðufull og drepfyndin. Hún var fyrirmynd með sínum styrk, þrautsegju og ákveðni í hverju sem hún tók sér fyrir hendur. Hún lifði lífinu til hins ítrasta — sleppti aldrei tækifærinu til að hlæja og dansa. Ég mun að eilífu sakna hennar og halda minningu hennar á lífi í hjörtum okkar ætíð.“
Eric minntist einnig móður sinnar sem hann kallaði „ótrúlega konu,“ og bætti við að hún hefði „kennt börnum sínum hörku, samhyggð og ákveðni.“
Donald Jr. skrifaði til móður sinnar að hann og systkini hans muni „sakna þín ótrúlega.“ Ennfremur skrifaði hann: „Takk fyrir að ýta alltaf hart að okkur, láta okkur ekki komast upp með neitt og innræta svo ótrúlegum gildum og persónueinkennum. Vegna húmors þíns og ævintýraþrár, er ég sá sem ég er í dag, vegna þín. Ég elska þig mjög mikið. Hvíldu í friði.“