Einn maður er látinn eftir að fíll gekk berserksgang í trúarathöfn á Indlandi í vikunni. Atvikið átti sér stað á miðvikudaginn þegar íbúar í Palakkad voru að halda árlega trúarathöfn sem er haldin til minningar um Aloor Valiya Pookunjikoya Thangal samkvæmt indverskum fjölmiðlum. Nokkrir fílar tóku þátt í athöfninni og sturlaðist fíllinn sem heitir Pakkathu Sreekuttan í miðri athöfn og réðst á fólk sem stóð nærri honum. Þá tók hann upp mann með rananum og sveiflaði honum fram og til baka og kastaði svo að lokum frá sér. Maðurinn var færður á sjúkrahús á miðvikudaginn en úrskurðaður látinn í dag. Maðurinn hét Krishnan Kutty og var 58 ára gamall. Auk andláts Kutty slösuðust 24 einstaklingar áður en tókst að róa fílinn.