Caitlin Clark, vinsælasta körfuboltakona allra tíma, mun ekki spila með bandaríska landsliðinu á Ólympíuleikunum í París í sumar.
Clark, sem er nýliði í WNBA-deildinni þykir hafa spilað gífurlega vel og á að flestra mati heima í landsliði Bandaríkjanna. Clark er jafnframt vinsælasta körfuboltakona heimsins þrátt fyrir að vera nýliði og mæta tugir þúsunda á leiki hjá liði hennar Indiana Fever eingöngu til að fylgjast með henni keppa.
En svo virðist vera að miklar vinsældir Clark hafi orðið til þess að hún hafi ekki verið valin í landsliðið en samkvæmt heimildum USA Today töldu lykilleikmenn landsliðsins að það yrði truflandi fyrir liðið að hafa hana í því. Ástæðan er sú að þó að Clark sé nógu góð til að vera valin í landsliðið þá væri hún ekki nógu góð til að spila margar mínútur í leik og slíkt myndi fara í taugarnar á þeim milljónum stuðningsmanna sem hún á um heim allan.
Mörgum þykir þetta léleg ástæða en sumir telja að öfundsýki eldri leikmanna í garð Clark sé komið á það stig að WNBA þurfi að grípa inn í en hún hefur fengið grimma meðferð andstæðinga á fyrsta tímabilinu, mun meira en flestir nýliðar eiga að þurfa venjast.