Kona, sem talin er vera 117 ára gömul og þar með elsta kona heims, fagnaði afmæli sínu á dögunum með litlu systur sinni. Hún er 107 ára.
Hin brasilíska Cicera Maria dos Santos er sögð vera fædd árið 1906, sem þýðir að hún er 117 ára en hún átti afmæli á dögunum. Verði fæðingavottorð hennar, sem hún hefur í sínum fórum, staðfest, þýðir það að Cicera er elsta kona heims, einu ári eldri en sú sem nú er skráð sem sú elsta, Maria Branyas Morera, frá Spáni.
Cicera fagnaði afmæli sínu með systur sinni, hinni 107 ára Josefa Maria de Conceicao, þann 23 september, umkringd fjölskyldu og vinum. Veislan innihélt litríka köku, nasl og dynjandi lófaklapp gestanna.
Og hvert er leyndarmálið á bakvið langlífið? Systurnar sögðu fjölmiðlum að leyndarmálið væri trúin á Guð og að borða skynsamlega.
„Friður Drottins sé með okkur. Hver getur gert meira en Guð? Allt er Guð,“ sagði Cicera og systir hennar bætti við: „Þú verður að borða. Baunir, maís, kassavarót, kartöflur.“
Cicera bjó í sveit mestan hluta ævinnar. Þar seldi fjölskyldan kjúklinga á markaði í Paraiba, sem er fylki í norð-austur Brasilíu.
Barnabarn Josefu, Ruan, sagði að systurnar væru „komnar af fólki sem voru í raun þrælar.“ Bætti hann við: „Fyrir fimm kynslóðum síðan var fjölskylda mín þrælar. Þær lifðu af allt á síðustu öld og þær sigruðust á Covid,“ útskýrði hann. „Mesta hamingja heimsins er að vera með þeim hér í dag.“
Þrælahald var stundað í Brasilíu frá því um miðja 16. öld þar til það var bannað á sjöunda áratug 19. aldar.
Samkvæmt frétt Daily Mail um málið, er ekki vitað hvort Cicera og fjölskylda hennar ætli sér að sækjast eftir titlinum „Elsta kona heims“ hjá Heimsmetabók Guinnes.