Um nokkurt skeið hafa verið haldnar hátíðir í Bandaríkjunum sem nefnast „Fleet Week“ en þá gefst bandarískum almenningi tækifæri til að skoða skip, kafbáta og aðra hluti tengda sjóher landsins og stendur hátíðin yfir í viku og býður sjóherinn upp á ýmiss konar sýningar. Sjóherinn hélt slíka hátíð í San Francisco á vesturströnd Bandaríkjanna fyrir stuttu og setti leiðinlegt slys mark sitt á hátíðina. Þar var boðið upp á sýningu frá fallhlífastökkvara sem sýndi listir sínar en það vildi ekki betur en að stökkvarinn brotlenti á konu og barni hennar. Samkvæmt vitnum var konan færð á sjúkrahús til athugunar en barnið þurfti ekki á slíkri aðhlynningu að halda. Samkvæmt fjölmiðlum voru meiðsli þeirra sem betur fer ekki alvarleg. Fallhlífastökkvarinn slasaðist ekkert við lendinguna.