„Ég reyndi að draga pilsið mitt að mjöðmunum til að lengja pilsið en mér var sagt að það væri samt ekki viðeigandi,“ skrifaði Ivana Hrynkiw, blaðamaður á al.fréttaveitunni AL.com í Alabama, á Twitter. Atvikið sem um ræðir átti sér stað síðastliðið fimmtudagskvöld í Alabama-fylki í Bandaríkjunum.
Ivana, ásamt öðrum blaðamönnum, vildi vera viðstödd þegar Joe Nathan James Jr yrði tekinn af lífi í fangelsi. Joe hlaut dauðarefsingu árið 1994 eftir að hafa myrt 26 ára gömlu Faith Hall. Það tók embættismenn þrjár klukkustundir að finna æð í Joe til þess að hægt væri að taka hann af lífi. Á meðan því stóð var Ivönu meinaður aðgangur en ástæðan var klæðnaður hennar. Var bæði gerð athugasemd við stutt pils hennar og opna háhælaða skó.
Klæðnaðurinn var sagður óviðeigandi en Ivana lét ekki stöðva sig. Hún fékk lánaðar vatnsheldar vöðlur frá ljósmyndara sem var viðstaddur og fór í íþróttaskó sem hún hafði meðferðis í bílnum sínum. Klædd í veiðivöðlur og íþróttaskó var henni hleypt inn í klefann þar sem fjölmiðlamenn fylgdust með aftökunni.
„Ég skammaðist mín fyrir líkama minn og fötin þegar ég var yfirheyrð fyrir framan herbergi, fullt af fólki, sem ég hitti nánast aldrei,“ sagði Ivana. „Ég settist niður, reyndi að hætta að roðna og vann vinnuna mína.‘‘ Hefur Ivana aldrei lent í aðstæðum sem þessum en færslan hefur fengið mikla athygli og atvikið sagt hneyklsi.