Fimm blaðamenn voru myrtir á Gaza í nótt. Þriðja barnið fraus í hel.
Ísraelsher drap fimm blaðamenn í loftárás á Gaza í nótt. Blaðamennirnir sváfu í sendibíl, kyrfilega merktum með orðunum „press“, þar sem þeir hefðu átt að vera öruggir. Eins og margir blaðamenn sem starfa á Gaza höfðu þeir komið sér fyrir í sendibílnum sínum í þeirri trú að þeir myndu vera óhultir fyrir árásum. Tala látinna fjölmiðlamanna á Gaza er nú komin upp í að minnsta kosti 146, á aðeins rúmu ári.
Þriðja barnið fraus í hel
Vetrarkuldinn bítur nú á Palestínumönnum sem margir hírast um í tjöldum en í gær fraus þriðja barnið í hel. Faðir eins þeirra tjáði sig við fjölmiðla nýverið.
Mahmoud al-Faseeh, faðir þriggja vikna stúlkunnar sem fraus til bana á al-Mawasi svæðinu í suðurhluta Gaza, ræddi stuttlega við fréttamenn um dauða dóttur sinnar, Silu.
„Við búum við slæmar aðstæður inni í tjaldinu okkar,“ sagði al-Faseeh.
Bætti hann við: „Við sofum á sandinum og höfum ekki nóg teppi. Við finnum fyrir kuldanum inni í tjaldinu okkar. Aðeins Guð þekkir aðstæður okkar. Staða okkar er mjög erfið. Það varð mjög kalt á einni nóttu og við fullorðna fólkið gátum ekki einu sinni umborið það. Við gátum ekki haldið á okkur hita,“ sagði hann við Associated Press fréttastofuna.“
Á miðvikudagsmorgun kom al-Faseeh að dóttur sinni látinni.
„Hún var eins og tré,“ sagði hann.