Myndir af fatnaði frá SHEIN verksmiðjunni hafa vakið mikla athygli síðustu daga. Má sjá skilaboð, skrifuð á miðana innan í flíkinni, þar sem beðið er um hjálp. Hávær gagnrýni hefur verið undanfarið vegna aðstæðna í verksmiðjum fyrirtækisins, sem staðsettar eru í Kína.
„Þau vinna 11 til 13 tíma á dag með EINN frídag í mánuði og í byggingu þar sem engir neyðarútgangar eru, hindraðir gangar, léleg loftræsting og ekkert útsýni út á við. Fólkið fær greitt fyrir saumaðan fatnað. Þau hafa enga samninga, fá ekki greidda yfirvinnu né bætur,“ stendur í Facebook-færslunni þar sem myndirnar birtust. Þar má sjá skilaboð eins og: „Hjálp!“ , „Hjálpaðu mér“ og „Ég er með tannpínu.“
Þá er fólk hvatt til þess að vera vakandi yfir því hvaðan vörur koma og hvaða fyrirtæki sé verslað við. „Þegar öllu er á botninn hvolft, einhvern veginn, borgar alltaf einhver verðið fyrir það sem er ódýrt.“