Mikill fjöldi lögreglu- og sjúkrabíla var kallaður út í framhaldsskólann Malmö Latin. Óljóst er hvað gerðist en að sögn lögreglu slösuðust tveir. Einn maður hefur verið handtekinn.
Rickard Lundqvist, talsmaður lögreglunnar, vill ekki gefa upp um hvað hinn handtekni er grunaður. SVT greindi frá þessu.
Lögreglan er enn að störfum við skólann en atvikið átti sér stað upp úr klukkan 17 að staðartíma. Á vef lögreglunnar kemur fram að grunur leiki á að um alvarlegt brot sé að ræða. Lögreglan vill ekki tjá sig um hvort fleiri en einn hafi komið að atvikinu.
Margir nemendur voru í skólanum, margt var um að vera, til dæmis stóð yfir undirbúningur á söngleik. „Lögreglan kom inn með dregin vopn og rýmdi skólann. En við vitum ekki hvað gerðist,“ segir nemandi við skólann í samtali vð SVT
Annar nemandi segist hafa séð tvo blóðuga menn borna út á börum.