Háhyrningur nokkur gaf skít í áhorfendur á sýningu SeaWorld í San Antonio í gær, bókstaflega.
Á miðri sýningu í SeaWorld í San Antonio sást hvar háhyrningur dýfði sér á bólakaf en vatnið varð ansi brúnt, enda skila hvalir af sér fæðu eins og önnur dýr. Áhorfendum brá nokkuð í brún við þessa sjón á meðan sumir hlógu. Þau snarhættu þó að hlæja um leið og háhyrningurinn gerði það sem hann er þjálfaður til að gera; skvetta vatni á áhorfendur. Stærðarinnar gusa slettist yfir saklausa áhorfendurna sem fengu aðeins meira en þeir bjuggust við þegar þeir borguðu sig inn á sýninguna.
Einn áhorfendanna sagði í viðtali við fjölmiðla að lyktin hafi verið hræðileg. „Við bjuggumst við að blotna, þar sem við sátum svona nærri, en ekki svona. Þetta lyktaði hræðilega og fólk kúgaðist.“
SeaWorld sagðist harma atvikið í tilkynningu sem birtist í dag. „Við hörmum þennan óheppilega atburð og stígum öll skref til að tryggja öryggi og þægindi gesta okkar. Teymið okkar fylgdi settum samskiptareglum til að lágmarka heilsufarsáhættu og mun endurskoða verklagsreglur okkar til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig.“
Og auðvitað náðist myndskeið af þessu sem hefur nú farið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðlana en það er hægt að sjá hér fyrir neðan.
Whale takes a shit at Sea World San Antonio, crowd gets splashed right after pic.twitter.com/vw3kjoG89U
— Dallas Texas TV (@DallasTexasTV) October 19, 2024