Hamas hefur sagt í yfirlýsingu sem gefin var út eftir afhendingu líka fjögurra ísraelskra gísla á Gaza, að Ísraelar hafi ekki virt líf þeirra á meðan þeir voru á lífi, en að samtökin reyndu að „virða helgi hinna látnu“ í afhendingarathöfninni sem haldin var í Khan Younis.
Hópurinn sagði einnig að jafnvel þegar þeir væru á lífi hafi gíslarnir verið meðhöndlaðir á mannúðlegan hátt og þeim útvegað allt sem til var, en að ísraelski herinn hafi drepið þá ásamt þeim sem rændu þeim.
„Glæpamaðurinn Netanyahu grætur yfir líkum fanga sinna í grímulausri tilraun til að komast hjá ábyrgð á að myrða þá fyrir framan áhorfendur sína,“ sagði í yfirlýsingunni.
„Fyrir fjölskyldur Bibas og Lifshitz, við hefðum kosið að synir ykkar hefðu snúið aftur lifandi, en leiðtogar ykkar völdu að drepa þá og með þeim 17.881 palestínsk börn,“ bætti hún við. Á Hamas þar við bræðurnar Kfir Bibas, sem var ungabarn er honum var rænt 7. október, og Ariel, fjögurra ára og svo Oded Lifschitz, sem einnig var tekinn sem gísl. Lík móður bræðranna, Shiri Bibas, var einnig meðal þeirra sem skilað var í dag.
Hamas varaði einnig við því að fangaskipti séu „eina leiðin til að skila föngunum á lífi og að reyna að ná þeim aftur með valdi eða hefja aftur stríð muni aðeins leiða til dauða þeirra.“
Isaac Herzog, forseti Ísraels, notaði samfélagsmiðilinn X til að biðjast fyrirgefningar á því að hafa ekki verndað gíslana fjóra.
„Fyrir hönd Ísraelsríkis hneigi ég höfuðið og biðst fyrirgefningar. Fyrirgefningu fyrir að hafa ekki verndað ykkur á þessum hræðilega degi. Fyrirgefningu fyrir að hafa ekki komið ykkur heim á öruggan hátt. Megi minning þeirra vera blessun,“ skrifaði hann.