Harmleikur Presley fjölskyldunnar hefur vart farið framhjá neinum eftir að Lisa Marie, dóttir Elvis og Priscillu Presley, lést í gær aðeins 54 ára að aldri. Presley var flutt á sjúkrahús eftir að hún fór í hjartastopp á heimili sínu í Kaliforníu í gærmorgun en síðar um kvöldið sendi móðir hennar frá sér yfirlýsingu þar sem hún staðfesti andlátið. Erlendir fréttamiðlar hafa fjallað um harmleikinn og andlát fjölskyldumeðlima langt fyrir aldur fram.
Faðir Lisu, Elvis Presley lést árið 1977 aðeins 42 ára að aldri. Elvis var einn vinsælasti tónlistarmaður fyrr og síðar og hefur gjarnan verið kallaður Kóngurinn eða Kóngur rokksins. Dánarorsökin var hjartaáfall en töldu læknar líklegt að fíkn hans í ávanabindandi lyf hafi verið það sem olli hjartaáfallinu.
Lisa kvæntist fjórum sinnum yfir ævina og eignaðist fjögur börn. Fyrstu tvö börnin Riley og Benjamin átti hún með fyrsta eiginmanni sínum Danny Keough en hjónin skildu eftir fimm og hálfs árs hjónaband. Rétt tæpum mánuði eftir skilnaðinn kvæntist hún tónlistarmanninum heimsfræga Michael Jackson. Hjónabandið entist ekki lengi og skildu þau tveimur árum síðar. Lisa stóð þétt við bak Jacksons þrátt fyrir að hann hafi verið sakaður um barnaníð mörgum árum síðar og sagðist trúa á sakleysi hans. Michael Jackson lést árið 2009 á heimili sínu í Kaliforníu. Dánarorsökin var hjartaáfall vegna lyfjanotkunar.
Árið 2002 giftist Lisa þriðja manninum, leikaranum Nicolas Cage, en brúðkaupsdagur þeirra var á dánardegi Elvis Presley. Fjórum mánuðum síðar var hjónabandinu lokið. Fjórum árum síðar giftist hún tónlistarmanninum Michael Lockwood og saman eignuðust þau tvíburana Harper og Finley. Hjónaband þeirra entist í tíu ár. Ævi Lisu var ekki auðveld en árið 2020 missti hún son sinn Benjamin sem tók sitt eigið líf. Hún átti við fíknivanda að stríða og talaði opinskátt um vandamál sín. Hún var einkabarn Pricillu og Elvis og hafa fjölmargir skrifað falleg minningarorð um hana á samfélagsmiðlum frá því í gær.