Lögreglan í Texas hefur handtekið byssumann sem hóf skotárás í borginni Austin á þriðjudaginn síðastliðinn. Árásarmaðurinn skaut til bana sex manns víða um borgina en þrír aðrir særðust alvarlega í árásinni, þar á meðal tveir lögreglumenn.
„Hinn grunaði er í haldi og er ekki lengur ógn við samfélag okkar í Austin,“ sagði Robin Henderson, lögreglustjóri í Austin, á blaðamannafundi í morgun.
Vitni sögðu hinn grunaða hafa byrjað á því að skjóta til bana verkamann sem sat í vörubíl fyrir utan heimili. Kona sem stödd var inni í húsinu flúði niður götuna en árásarmaðurinn elti hana uppi og skaut einnig til bana. Því næst stal hann vörubíl verkamannsins og flúði af vettvangi.
Þegar lögregla hafði upp á manninum brást hann illa við og skaut á lögreglumenn áður en hann reyndi að flýja. Hann komst ekki langt og var handtekinn á gatnamótum skammt frá. Lögregla segir rannsóknina vera á frumstigi en þeir slösuðu voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar.