Ísraelsher særði tvo ítalska friðargæsluliða í árás á bækistöð þeirra í Suður-Líbanon í gær. Kína er meðal þeirra ríkja sem fordæma árásirnar.
Ísraelskar hersveitir hafa beitt sér ólöglega með því að skjóta á bækistöðvar sem friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna (UNIFIL) nota í Líbanon, að sögn ítalska varnarmálaráðherrans Guido Crosetto, sem fordæmdi árásina sem mögulegan „stríðsglæp“.
„Þetta voru ekki mistök og ekki slys,“ sagði Crosetto á blaðamannafundi. „Þetta gæti verið stríðsglæpur og verið mjög alvarlegt brot á alþjóðlegum mannúðarlögum,“ sagði hann.
Crosetto sagðist hafa haft samband við ísraelska starfsbróður sinn til að mótmæla og einnig kallað á ísraelska sendiherrann á Ítalíu til að krefjast skýringa, sem enn lægi ekki fyrir.
Á sama tíma lýsti Kína yfir „miklum áhyggjum og harðri fordæmingu“ á atvikunum.
„Kína lýsir yfir þungum áhyggjum og harðri fordæmingu vegna árásar ísraelska varnarliðsins á UNIFIL bæki- og eftirlitsstöðvar, sem olli meiðslum á starfsfólki UNIFIL,“ sagði Mao Ning, talsmaður utanríkisráðuneytisins, og vísaði til friðargæsluliðs SÞ í Líbanon.