Einn kennari er látinn eftir hnífstunguárás í skóla í Frakklandi í morgun. Þá eru nokkrir aðrir særðir eftir árásina sem átti sér stað í Gambetta menntaskólanum í norðurhluta Arras. Árásarmaðrinn hefur verið handtekinn ásamt bróður sínum en haft er eftir vitnum að hann hafi hrópað: „Allahu Akbar“ eða „Guð er máttugastur“.
Gérald Darmanin innanríkisráðherra tjáði sig um málið en sagði hann árásarmanninn,sem er tvítugur, vera á „fichier S“ hryðjuverkalista Frakklands fyrir grunaða öfgamenn. Hann var handtekinn ásamt bróður sínum. Franska fréttaveitan BFMTV greindi frá því að kennarinn sem lést hafi verið frönskukennari en íþróttakennari hafi einnig verið stunginn. Nemendum var brugðið en sagði einn þeirra að kennararnir hafi verndað þau og reynt að róa þau þegar þau sáu manninn, vopnaðann tveimur hnífum.