Stundum er auðvelt að vera vitur eftir á en gamall maður sem var illa bitinn af krókódíl í Indónesíu hefði sennilega átt að vita betur. Maðurinn, sem var að ferðast um landið, ætlaði að gefa krókódíl í dýragarðinum Cimory Dairyland að borða þegar villidýrið beit harkalega í handlegg mannsins og kastaði honum til og frá. Fólk sem stóð manninum nærri öskraði þegar það sá hvað gerðist. Dýrinu hafði verið bjargað eftir mikið flóð í síðustu viku. Til allrar hamingju náðist að bjarga manninum úr kjafti krókódílsins en samkvæmt fjölmiðlum í Indónesíu er handleggur hans mjög illa farinn. Hann hugsar sig eflaust tvisvar um ef honum býðst annað tækifæri til að gefa krókódíl að borða.