Vilhjálmur krónprins Bretlands og Katrín prinsessa af Wales hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir langt sumarfrí.
Sumarið hefur heldur betur verið rólegt hjá Vilhjálmi og Katrínu en þau hafa lítið gert annað en að vera með börnum sínum og hefur það verið gagnrýnt af mörgum.
„Vilhjálmur og Katrín leggja alltaf mikla áherslu á að verja sem mestum tíma með börnunum. Þau tóku frá allt sumarið til þess,“ sagði heimildarmaður innan hallarinnar. „Tími þeirra með börnunum er þeim mjög mikilvægur sérstaklega í ljósi þess sem Vilhjálmi finnst hann hafa farið á mis við slíkt í eigin æsku. Þau vilja gera allt til þess að börnin upplifi eðlilega æsku og ástríki foreldra sinna.“
„Þau eru að fá miklu meira sumarfrí en venjulegar fjölskyldur í Bretlandi geta leyft sér,“ sagði Richard Palmer, konunglegur álitsgjafi. „Það eru mjög fáar fjölskyldur sem geta leyft sér að hafa báða foreldrana heima í fríi í öllum skólafríum í samtals tólf til þrettán vikur á ári. Allir vilja þeim vel en þau þurfa samt að passa sig á þessu. Þetta gæti stuðað fólk. Þau eru vinsæl og mikill fengur fyrir Bretland en meðlimir konungsfjölskyldunnar hafa sett spurningamerki við það hversu lítið þau vinna miðað við aðra. Þau eru undir vissum þrýstingi að auka afköst sín.“
Mbl.is greindi frá