Leitin að hinum breska leikara Julian Sands hélt áfram síðasta laugardag, mánuðum eftir að hann týndist í fjallgöngu á Suður Kaliforníu-fjöllum, samkvæmt lögreglustjóra San Bernandino-sýslu.
Tilkynning um hvarf Sands barst frá fjölskyldu hans þann 13. janúar en hann hafði farið í göngu á San Gabriel-fjöllunum, rétt fyrir utan Los Angeles-borg. Afar snjóþungt var á svæðinu er hann týndist og vindur mikill og kalt úti en lögreglan sagði á sínum tíma að aðstæður til göngu þar væru „óhagstæðar og stórhættulegar“.
Meira en 80 björgunarsveitarmenn, sjálfboðaliðar, lögreglumenn og aðrir viðbragðsaðilar hafa tekið þátt í leitinni en enn hefur hún ekki borið árangur.
Þá voru einnig notaðar tvær þyrlur og flygildi, til að leita á afskekktum svæðum í fjöllunum, þar sem óaðgengilegt er fyrir fólk á jörðu niðri.
„Þrátt fyrir hlýnandi veður að undanförnu eru hlutar fjallsins óaðgengilegir vegna mikilla alpaaðstæðna,“ sagði í tilkynningu frá lögreglustöðinni í San Bernardino-sýslu er tilkynnt var um framhald leitarinnar.
Mörg svæði eru afar brött og innihalda gil þar sem þriggja metra hár snjór og klaki liggur, að sögn lögreglunnar.
Lögreglustöðin hefur fram að þessu framkvæmt átta leitir á jörðu niðri og í lofti að Sands, þar sem sjálfboðaliðar skráðu sig inn í meira en 500 klukkustundir í viðleitni sinni til leitarinnar.
Samkvæmt lögreglunni er mannshvarfsmál Sands enn í gildi og verður haldið áfram að leita að honum en í takmörkuðu umfangi.
Annar göngumaður, Bob Gregory, frá Hawthorne, Kaliforníu týndist á sama svæði á svipuðum tíma og leikarinn en lík hans fannst í febrúar.
Sands fæddist í Englandi en hefur dvalið í Norður-Hollywood en hann hefur komið fram í fjöldi sjónvarpsþátta og kvikmynda, frá níunda áratug síðustu aldar. Þekktastur er hann fyrir hlutverk sín í myndum á borð við A Room With a View, Leaving Las Vegas og að ógleymdri köngulóahrollvekjunni Arachnophobia.