Um 1.500 skjaldbökur fundust á flugvellinum í Manila í gær. Þeim hafði verið smyglað ólöglega frá Hong Kong.
Lögreglan í Filippseyjum lagið hald á um 1.500 lifandi skjaldbökur á flugvellinum á Manila í gær. Skjaldbökunum, sem eru af nokkrum ólíkum tegundum, hafði verið smyglað frá Hong Kong. Þeim hafði verið vafið í límband eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.
Skjaldbökurnar fundust í fjórum ferðatöskum sem höfðu verið yfirgefnar á flugvellinum. Talið er að sá sem ber ábyrgð á töskunum hafi skyndilega ákveðið að hætta við áætlun sína. Þetta kemur fram á vef BBC.
Þess má geta að áætlað er að það hefði verið hægt að selja skjaldbökurnar sem gæludýr fyrir upphæð sem nemur um 28 milljónum króna.
Myndir / Bureau of Customs NAIA á Facebook