Stórfurðulegt slys átti sér stað um helgina í Palm Spring í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Þar var verið að halda hina árlegu ljósaskrúðgöngu Palm Springs og voru mörg hundruð áhorfendur mættir til að horfa á skrúðgönguna. Lögreglan tók þátt í göngunni og skreytti bíla sína og mótorhjól en á myndbandi sem hefur verið birt af henni má sjá hræðilegt slys sem átti sér stað. Það virðist vera sem lögreglumaður á mótorhjóli auki óvart hraðann og missti í kjölfarið stjórn á hjólinu og klessti á áhorfendur. Samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs slösuðust tíu áhorfendur en lögreglumaðurinn á mótorhjólinu missti aðra höndina. Lögreglustjóri Palms Springs sagði í yfirlýsingu að málið væri í rannsókn og baðst innilega afsökunar á slysinu og óskaði öllum þeim sem slösuðust skjótan bata.